Björgvin íhugaði tvisvar afsögn

Björgvin G. Sigurðsson tilkynnir um afsögn sína á blaðamannafundi í …
Björgvin G. Sigurðsson tilkynnir um afsögn sína á blaðamannafundi í janúar á þessu ári. Golli

Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, telur að hann hafi gert mistök með því að segja ekki af sér embætti daginn eftir að ákveðið var að ríkið yfirtæki Glitni.

Þetta kemur m.a. fram í nýrri bók Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, Umsátrið - Fall Íslands og endurreisn.

Í bókinni kemur fram, að Björgvin frétti ekki af því, sem til stóð, fyrr en um kvöldmatarleytið sunnudagskvöldið 28. september í fyrra þegar Jóhanna Sigurðardóttir, þá félagsmálaráðherra, hringdi í hann og spurði hvað væri að gerast en Björgvin kom af fjöllum. Jóhanna átti bágt með að trúa því og sagði: „Ég held að þeir séu að taka Glitni."

Daginn eftir var tilkynnt að ríkið hefði tekið yfir 75% hlut í Glitni gegn því að leggja bankanum til nýtt eigið fé. Síðar var fallið frá þessum áformum í kjölfar setningar neyðarlaganna.

Styrmir segir í bók sinni, að Björgvin telji sig hafa gert tvenns konar mistök þennan sólarhring. Annars vegar að sinna ósk um, að hann kæmi til fundar við Jón Ásgeir Jóhannesson þá um nóttina og hins vegar að segja ekki af sér ráðherraembætti daginn eftir vegna framkomu formanns Samfylkingarinnar við sig. Hann segi að ástæðan fyrir því að hann sagði ekki af sér ráðherraembætti þá þegar hafi verið skortur á pólitísku sjálfstrausti og reynsluleysi í stjórnmálum. Össur Skarphéðinsson lagði hart að honum að segja ekki af sér.

Fram kemur í bókinni, að Björgvin hafi á næsta ríkisstjórnarfundi látið bóka mótmæli vegna þess að ráðherra bankamála var ekki kallaður til.  Hann hafi einnig verið nálægt því að segja af sér um miðjan nóvember á þeirri forsendu að einhver yrði að axla pólitíska ábyrgð á hruninu en Össur hafi aftur fengið hann ofan af því.

„Innan Samfylkingarinnar voru einhverjir þeirrar skoðunar, að segði Björgvin af sér myndi þrýstingurinn magnast á Ingibjörgu Sólrúnu (Gísladóttur, formann flokksins) sjálfa að segja af sér," segir Styrmir.

Björgvin sagði af sér embætti viðskiptaráðherra í janúar, skömmu áður en ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var slitið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert