Tími er kominn til að teknar verði pólitískar ákvarðanir um hvernig beri að reisa atvinnulífið við. Sá lagarammi sem Alþingi hefur skapað utan um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja tekur ekki nægilega á ýmsum álitamálum. Þetta sagði Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, við utandagskrárumræðu á Alþingi í dag.
Umræðan var um fjárhagslega endurskipulagningu lífvænlegra fyrirtækja og málshefjandi var Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks. Hann sagði m.a. að enga samræmingu mætti finna í verkferlum bankanna. Þeir séu mislangt komnir í vinnu sinni við verklagsreglur líkt og sjá megi á því í fjölmiðlum að fyrirtæki fá mismunandi meðferð. Hann spurði fjármálaráðherra hvort bankarnir störfuðu ekki eftir þeim markmiðum sem sett eru fram í eigendastefnu bankanna, þ.e. að gæta þurfi jafnræðis, gagnsæis og réttlætis.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, hvatti þingmenn til að sækja bankana heim og fá hjá þeim kynningu á verkferlum. Einnig að bankasýslan færi með eigendavald yfir bönkunum og sæi til þess að eigendastefnan væri virt. Þar hefði ríkið sett sér skýr viðmið, líkt og gagnsæi og að skilvirkir ferlar séu til staðar.
Ekki má gleyma sér í bölmóði
Magnús Orri Schram, varaformaður viðskiptanefndar Alþingis, sagði ástandið ekki jafn slæmt og menn héldu að það yrði. Gjaldþrot ekki jafn tíð og atvinnuleysi ekki jafn mikið. Þá blómstri ferðaþjónustan og útlitið sé gott í sjávarútvegi. Hann skoraði á þingmenn að gleyma sér ekki í bölmóði, þó svo að það kunni að henta betur í pólitískum skylmingum. Trú á bjartari tíð geti komið þjóðinni langt.
Lilja Mósesdóttir, formaður viðskiptanefndar, sagði hins vegar að mikilvægar ákvarðanir þurfi að taka og gera þurfi kröfu til þess að bankarnir setji sér strangar siðareglur, ekki síst um hæfi starfsfólks. Hún sagði spurningarnar helst þær, hvort tryggja eigi dreifða eignaraðild, eða sömu stjórnendur eigi að stýra fyrirtækjum eftir endurskipulagningu. Þá sagði hún að bankarnir mættu ekki skekkja samkeppni. Meiri líkur séu á því að þeir telji stærri fyrirtæki lífvænleg fremur en minni.
Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokks, sagði forgangsmála að byggja upp traust. Hann tiltók að á fundi viðskiptanefndar nýverið hefði verið upplýst að bankarnir hafi ekki samræmdar viðmiðunarreglur um hvernig taka beri á vanda fyrirtækja. hann sagði fólk kalla eftir því að fyrirtæki sitji við sama borð og því sé eðlilegt að spyrja hvers vegna verklagsreglur séu ekki samræmdar.