Fær skaðabætur fyrir að súpa á sælgætisúða

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is/Ómar Óskarsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt innflutningsfyrirtæki, CU2 ehf., og söluturn, Biðskýlið Njarðvík ehf., til að greiða stúlku skaðabætur vegna líkamstjóns er hún hlaut í kjölfar þess að hún saup á sælgætisúða sem CU2 flutti inn og keyptur var í söluturninum. Er þeim gert að greiða henni 3.388.255 krónur auk vaxta og dráttarvaxta frá árinu 2003. Jafnframt er þeim gert að greiða 1.329.536 krónur í málskostnað.

Stúlkan, sem er ellefu ára í dag, neytti  þann 19. ágúst árið 2003 svokallaðs „Sour Blast“ sælgætisúða sem  keyptur var í  Biðskýlinu Njarðvík ehf. Um er að ræða eldsúran vökva sem seldur er í úðabrúsa og er eingöngu ætlaður til notkunar í afar smáum skömmtum hverju sinni í formi úða. Er gert ráð fyrir að vökvans sé neytt með þeim hætti að neytandinn sprauti honum upp í sig beint úr umbúðunum, að því er segir í niðurstöðu héraðsdóms.

Stúlkunni, sem á þessum tíma var 5 ára gömul, tókst að opna umbúðir sælgætisúðans þannig að mögulegt var að súpa á vökvanum. Saup hún í kjölfarið á vökvanum. Þar sem vökvinn er eldsúr, enda eingöngu ætlaður til notkunar í afar smáum skömmtum í formi úða, svelgdist henni á vökvanum. Varð það til þess að hluti hins súra vökva rann ofan í lungu barnsins.

Hefur stúlkan haft þrálát einkenni frá lungum síðan og ekki náð fullum bata þrátt fyrir umfangsmikla læknismeðferð.

Mál þetta var höfðað 17. ágúst 2006. Héraðsdómur úrskurðaði í mars 2008 að fallist yrði á kröfu Biðskýlisins Njarðvík ehf., um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um tiltekin atriði. Hins vegar felldi Hæstiréttur Íslands úrskurð héraðsdóms úr gildi í apríl í fyrra.

Héraðsdómur segir m.a. í niðurstöðum sínum, að fyrir liggi sýrustig sælgætisúðans hafi verið mjög lágt og miklu lægra en búast megi við og eðlilegt megi teljast í matvælum. Þá liggi fyrir að umbúðir utan um vökvann voru með þeim hætti að auðvelt var fyrir fimm ára barn að opna þær og súpa á vökvanum, sem verði að teljast óforsvaranlegt.  

„Fyrir liggur að um sælgæti er að ræða og vitað er að börn eru stór hluti neytenda slíks varnings. Með hliðsjón af því, og einnig með hliðsjón af því hvers konar efni var í sælgætisúðanum, verður að telja að varúðarorðin á umbúðum brúsans hafi verið öldungis ófullnægjandi," segir dómurinn og bætir við að sýnt hafi verið fram á að varan hafi verið haldin ágalla sem varði við lög. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert