Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Hérðaðsdóms Reykjavíkur um að gæsluvarðhald yfir Brasilíumanni, sem kom með ólöglegum hætti til landsins í ágúst, verði framlengt til 27. nóvember. Maðurinn er eftirlýstur í Brasilíu og hafa þarlend stjórnvöld lagt fram framsalskröfu. Meðferð þeirrar kröfu hefur tafist vegna þess að maðurinn hefur óskað eftir hæli hér.
Maðurinn heitir Hosmany Ramos, 65 ára að aldri. Hann kom til Íslands frá Ósló 8. ágúst en var á leið til Toronto í Kanada og framvísaði vegabréfi bróður síns í vegabréfaskoðun á Keflavíkurflugvelli. Hann var dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir þetta brot en hefur síðan setið í gæsluvarðhaldi.
Framsalsbeiðni brasilískra dómsmálayfirvalda barst til Íslands 7. september. Í framsalsbeiðninni kemur fram að í september árið 1998 hafi Ramos hlotið 30 ára fangelsisdóm fyrir rán, mannrán, skjalabrot og mótþróa við handtöku. Refsingin hafi verið milduð í 24 ár með dómi í nóvember árið 2002.
Á Þorláksmessu 2008 hafi yfirvöld í Brasilíu veitt Ramos leyfi til að dvelja á heimili sínu um jól og áramót. Honum hafi verið borið að hefja að nýju afplánun 3. janúar 2009, en hann hafi ekki skilað sér. Í kjölfarið hafi verið gefin út handtökuskipun og hann eftirlýstur með það fyrir augum að hann yrði framseldur.
Ramos sótti um pólitískt hæli hér á landi en þann 23. október synjaði Útlendingastofnun beiðni hans um hæli og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Ramos kærði þá ákvörðun til dómsmálaráðuneytisins, sem ákvað að fresta ákvörðun í framsalsmáli hans þar til niðurstaða ráðuneytisins í kærumálinu liggur fyrir.
Hæstiréttur segir, að hugsanlegar tafir á meðferð framsalsbeiðni sem komi til vegna óska Ramosar um málsmeðferð eigi að svo stöddu ekki að leiða til þess að skilyrði laga um gæsluvarðhald yfir honum teljist ekki lengur vera fyrir hendi.