Stjórn Ungra vinstri grænna skorar á sjávarútvegsráðherra, Jón Bjarnason, að hefja að fullu vinnu við framkvæmd fyrningarleiðarinnar til að afnema kvótakerfið í núverandi mynd í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og stefnu VG, segir í fréttatilkynningu frá félaginu.
,,Sjávarútvegur er og verður ein allra mikilvægasta atvinnugrein á Íslandi. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur ályktað að núgildandi kvótakerfi brjóti gegn Alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi um jafnrétti allra manna. Það er því mikið réttlætismál að fiskveiðistjórnunarkerfið verði tekið til gagngerrar endurskoðunar og að nýtt kerfi hafi félagsleg sjónarmið að leiðarljósi.
Fiskimiðin eru allt í kringum landið og þau ber að nýta frá heimabyggð. Endurskoða þarf úthlutun aflaheimilda jafnt sem fiskveiðistefnuna sjálfa. Til þessa hefur vísindaráðgjöf ekki stuðlað sem skyldi að eflingu fiskistofna, vernd vistkerfis og sjálfbærri þróun – því þarf að breyta."