Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, veltir upp þeirri alvarlegu spurningu hvort aðgerðir eða aðgerðaleysi ríkisstjórnar Geirs H. Haarde í aðdraganda hrunsins í fyrra kunni að varða við lög um ráðherraábyrgð og að einhverjir ráðherrar í ríkisstjórn Geirs H. Haarde verði dregnir fyrir landsdóm, í bók sinni Umsátrið – Fall Íslands og endurreisn, sem kemur út hjá bókaforlaginu Veröld í dag.
„Ég hef ekki hugmynd um það hvort það verður niðurstaðan, en ástæða þess að ég fjalla um þetta álitaefni með þeim hætti sem ég geri eru ummæli Páls Hreinssonar, formanns rannsóknarnefndar Alþingis, frá því síðsumars í sumar,“ sagði Styrmir í samtali við Morgunblaðið í gær.
Þar vísar Styrmir til útvarpsviðtals við Pál Hreinsson, formann rannsóknarnefndar Alþingis, frá því í ágústlok, þar sem hann sagði m.a. að engin nefnd hefði orðið að flytja þjóð sinni jafn erfið tíðindi og rannsóknarnefndin mundi flytja henni.
Sjá nánari umfjöllun um bók Styrmis og spurninguna um hver sé ábyrgð stjórnvalda á hruninu í Morgunblaðinu í dag.