Tuttugu og sex einstaklingar lögðu í dag fram kvörtun til Umboðsmanns Alþingis vegna hátternis Steingríms Jóhanns Sigfússonar fjármálaráðherra. Kvörtunin snýst um meint brot Steingríms á 2. gr. stjórnarskrár Íslands sem kveður á um aðgreiningu valds.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá hópnum. Ranglega kom fram í frétt mbl.is fyrr í dag að tilkynningin væri frá umboðsmanni Alþingis.
Telur hópurinn að Steingrímur hafi brotið gegn stjórnarskránni þegar hann sem fjármálaráðherra og handhafi framkvæmdavaldsins gerði samning fyrir Íslands hönd um ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (Icesave-samningar) og síðan sem alþingismaður og handhafi löggjafarvalds veit sömu samningum brautargengi á Alþingi með atkvæði sínu.
Þetta telur hópurinn að stangist á við 2. gr. stjórnarskrár Íslands og gangi gegn mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá 10. desember 1948 og ennfremur lögum um mannréttindasáttmála Evrópu.