Í morgun hófst vinna í fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Akranesi að nýju eftir langt hlé er farið var að vinna úr afla sem Faxi RE kom með til Akraness um miðnætti sl. Afli skipsins er um 1.400 til 1.500 tonn af síld sem veiddist í Breiðafirði. Von er á meiri síldarafla til Akraness á næstunni.
„Hér hefur vinnsla legið niðri frá því að verið var að bræða kolmunna sl. vor,“ sagði Almar Sigurjónsson, rekstrarstjóri fiskmjölsverksmiðja HB Granda, er rætt var við hann í morgun. Þá var verið að gangsetja verksmiðjuna.
Að sögn Almars á vef HB Granda er afkastageta verksmiðjunnar á Akranesi um 900 til 1.000 tonn af hráefni á sólarhring en hann sagðist reikna með að vinnslan færi rólega af stað og verksmiðjan yrði væntanlega ekki keyrð á nema hálfum afköstum til að byrja með. Um 10 til 11 manns munu vinna við framleiðsluna og unnið verður á tvískiptum vöktum.