Stjórnendur Atorku gagnrýna Kaupþing

Stjórnendur Atorku Group hf. hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir segjast furða sig á ummælum Finns Sveinbjörnssonar, bankastjóra Nýja Kaupþings í tengslum við umfjöllun um 1998 ehf, móðurfélag Haga, þar sem fram komi að Finnur telji eðlilegt að eigendum Haga gefist kostur á að koma með nýtt fé inn í rekstur félagins. Vitni bankastjórinn m.a. til verklagsreglna bankans um meðferð slíkra mála.

Ummæli bankastjórans, Finns Sveinbjörnssonar, um að eðlilegt sé að veita eigendum Haga svigrúm til að koma með nýtt fé og ekki sé útilokað að felldar verði niður skuldir í því ferli, vekja óneitanlega spurningar um hvort jafnt sé gefið í viðskiptum þeirra eignarhalds- og fjárfestingafélaga sem átt hafa í viðskiptum við Kaupþing.

Hluthöfum Atorku Group hf. stóð þess konar þolgæði ekki til boða af hálfu Kaupþings þegar fyrirtækið átti í viðræðum við Kaupþing og fleiri kröfuhafa, fyrr á þessu ári. Þreifingum stjórnenda fyrir hönd hluthafa um að koma með nýtt fé inn í reksturinn var hafnað af hálfu bankans, jafnvel þó ekki væri gert ráð fyrir neinum niðurfellingum eða afskriftum á skuldum félagsins. Hagur um 4600 hluthafa Atorku Group hf. var því fyrir borð borinn," segir í yfirlýsingunni.

Komið hafi nú á daginn að spár stjórnenda Atorku, um fyrirsjáanlegan bata í rekstri þeirra fyrirtækja sem mynda eignasafn félagsins, hafi í nær öllum atriðum ræst. „ Hið hrópandi ósamræmi á milli orða bankastjórans og framkomu bankans í samskiptum við Atorku er óásættanlegt. Kaupþing leiddi það ferli sem endurskipulagning Atorku fór í á fyrri hluta þessa árs. Hinar títtnefndu „verklagsreglur" virðast því frekar nýtilkomnar, ef þær innihalda slíkar áherslur í meðferð skuldara sem bankastjórinn vísar til í viðtölum við fjölmiðla," segir í yfirlýsingunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert