„Við ætlum að leggja skatt á mestu eignirnar, fjármunaeignir og aðrar eignir hjá ríkasta hluta þjóðarinnar,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra á blaðamannafundi í Þjóðminjasafninu í dag, þar sem væntanlegar skattahækkanir voru kynntar.
Á meðal nýrra skatta er svonefnt auðlegðargjald, sem leggst á nettóeign fólk umfram 90 milljónir króna hjá einstaklingum en 120 milljónir króna hjá hjónum. Skatturinn verður 1,25%.
Steingrímur minnti á að á síðustu árum hafi mjög fámennur hópur fólks í landinu eignast gríðarlegar eignir, fasteignir og fjármunaeignir. 0,8% hjóna í landinu eiga tæplega 13% eigna.
„Það er vitað að þetta er að stórum hluta til fjármunaeignir. Þarna hefur orðið mikil eignamyndun á skömmum tíma og við skulum ekki gleyma því að þetta fólk, í þeim tilvikum sem um fjármunaeignir er að ræða, svo sem innistæður og fleira, það slapp í gegnum bankahrunið án þess að þær skertust," sagði fjármálaráðherra. Hinum nýja skatti er ætlað að afla ríkinu um þriggja milljarða króna á næsta ári.
„Við teljum sanngjarnt að þessi hópur leggi sitt af mörkum," sagði Steingrímur. Hópurinn skyldi leggja til þær tekjur ríkisins sem koma til viðbótar við þá skatta sem eiga að loka fjárlagagatinu, enda verði milljörðunum þremur ráðstafað beint í að koma aftur með hækkun vaxtabóta á næsta ári og hverfa frá þeirri fyrirhuguðu skerðingu barnabóta sem fjárlagafrumvarpið gerði ráð fyrir.