Greiðslujöfnun verðtryggðra íbúðalána, sem komið var á með lögum að frumkvæði Árna Páls Árnasonar félagsmálaráðherra, vefst enn fyrir mörgum og margir leita sér ráðgjafar um hana hjá Íbúðalánasjóði (ÍLS), bönkum og hjá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Flestir sem hringja spyrja hvort það borgi sig að hafna greiðslujöfnun og hversu mikið greiðslubyrðin lækki.
Nú þegar hafa rúm 29% lántakenda hjá ÍLS afþakkað greiðslujöfnun á sínum lánum, á um fjórðungi útistandandi lána hjá sjóðnum. Til samanburðar má nefna að í fyrradag höfðu hjá Landsbanka Íslands rúmlega 13% lántakenda, eða 1.393 manns, afþakkað greiðslujöfnun af ríflega ellefu prósentum húsnæðislána hjá bankanum, eða 1.909 lánum. Ekki fengust í gær svör frá Íslandsbanka og Kaupþingi um þennan fjölda hjá þeirra viðskiptavinum, en fyrrnefndar upplýsingar benda til þess að hærra hlutfall af viðskiptavinum bankanna en viðskiptavinum ÍLS telji sig hafa fulla þörf fyrir greiðslujöfnun.
Svanhildur Guðmundsdóttir, sviðsstjóri þjónustusviðs hjá ÍLS, segir marga sem leita ráðgjafar gera sjálfkrafa ráð fyrir því að greiðslubyrðin á sínu láni muni lækka, en það sé ekki alltaf gefið.
Annað atriði sem margir velta fyrir sér er það hvað verður um lengingu lánsins, biðreikninginn sem verður til, ef fólk byrjar í greiðsluaðlögun en hættir síðan í henni eftir ákveðinn tíma. Svarið við þeirri spurningu, að sögn Svanhildar, er að biðreikningurinn er unninn niður aftur með stífari afborgunum.
Ásta Sigrún Helgadóttir, forstöðumaður Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, segir að allt frá hruni hafi mikið verið um að fólk hringi þangað til að fá hlutlaust álit á þeirri ráðgjöf sem það fær í bönkunum. Það eigi einnig við um ráðgjöf bankanna um greiðslujöfnunina. „Það er ennþá mikið vantraust á bönkunum,“ segir Ásta Sigrún. Hún kveður hins vegar ekki hægt að kvarta yfir upplýsingagjöf bankanna um það. Hún sé yfirleitt mjög góð.
Ásta Sigrún segir ennfremur mikinn rugling í gangi um það hvaða lán falli undir almenna greiðslujöfnun. Margir haldi að gengistryggð lán geri það. Einnig rugli margir greiðslujöfnun saman við önnur úrræði, svo sem greiðsluaðlögun.
Hins vegar þarf lán að vera í skilum til að geta farið í almenna greiðslujöfnun. Ef lánið er ekki í skilum þarf að semja sérstaklega við viðkomandi lánardrottin um það. Ef lánið er í annars konar sértækri meðferð, svosem frystingu eða greiðsluaðlögun, þá þarf því fyrst að ljúka áður en lánið getur farið í almenna greiðslujöfnun.
Ásta Sigrún segir einnig mikið spurt út í greiðslujöfnunarvísitöluna, sem byggist á atvinnustigi og launaþróun. Margir vilji fá spá um hvernig þeir þættir muni þróast og biðja jafnvel um að sér sé sagt hvað þeir eigi að gera. Ásta leggur hins vegar áherslu á að hver og einn þurfi að taka sjálfstæða ákvörðun um hvað sé best fyrir sig.