Vonir deCODE rættust ekki

Starfsmenn ÍE að störfum.
Starfsmenn ÍE að störfum. Sverrir Vilhelmsson

Dag­blaðið The New York Times seg­ir í dag að vís­inda­leg­ar ástæður geti verið fyr­ir því að deCODE (móður­fé­lag Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar) hafi gengið jafn illa fjár­hags­lega og raun ber vitni. Vænt­ing­ar vegna erfðafræðirann­sókna í tengsl­um við bar­áttu gegn sjúk­dóm­um hafi ekki ræst. 

Blaðið seg­ir að fyr­ir­tækið hafi fljótt orðið leiðandi í heim­in­um í leit­inni að or­sök­um al­gengra sjúk­dóma. Vís­inda­menn þess hafi fundið stökk­breyt­ing­ar sem teng­ist geðklofa, hjarta­sjúk­dóm­um, syk­ur­sýki, krabba­meini í blöðru­hálskirtli og mörg­um öðrum sjúk­dóm­um. Beitt hafi verið þeirri aðferð að greina breyt­ing­arn­ar fyrst meðal Íslend­inga og staðfesta þær síðan með rann­sókn­um á fólki í öðrum lönd­um.

„Hvað sem líður hugs­an­leg­um viðskiptamis­tök­um deCODE er mik­il­væga ástæðu fyr­ir falli þess að finna í vís­ind­un­um - erfðafræðileg­ir þætt­ir sjúk­dóma í mönn­um hafa reynst miklu flókn­ari en talið var," seg­ir blaðið. „Marg­ir vís­inda­menn gerðu ráð fyr­ir því að fá­ein­ar stökk­breyt­ing­ar gætu út­skýrt flest til­felli allra helstu sjúk­dóma. En stökk­breyt­ing­arn­ar sem deCODE og fleiri fyr­ir­tæki fundu í hverj­um sjúk­dómi reynd­ust aðeins út­skýra ör­lít­inn hluta til­fell­anna."

DeCODE óskaði í fyrra­kvöld eft­ir greiðslu­stöðvun. Samþykki banda­rísk­ur dóm­stóll beiðni fé­lags­ins  mun hefjast upp­boðsferli. Saga In­vest­ments, fé­lag í eigu er­lendra fjár­festa, hef­ur þegar lagt fram bind­andi til­boð í Íslenska erfðagrein­ingu, dótt­ur­fé­lag deCODE, en öðrum verður heim­ilt að bjóða í fyr­ir­tækið. Gert er ráð fyr­ir því að kröfu­haf­ar eign­ist um 20 pró­senta hlut í fyr­ir­tæk­inu.

Earl Collier mun taka við af Kára Stef­áns­syni sem for­stjóri Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar gangi áætlan­ir eft­ir. Collier hef­ur verið stjórn­ar­maður í DeCode Genetics, móður­fé­lagi ÍE, um ára­bil. Með aðkomu er­lendra fjár­festa að ÍE á starf­semi fyr­ir­tæk­is­ins að vera tryggð næstu tvö árin.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert