Vonir deCODE rættust ekki

Starfsmenn ÍE að störfum.
Starfsmenn ÍE að störfum. Sverrir Vilhelmsson

Dagblaðið The New York Times segir í dag að vísindalegar ástæður geti verið fyrir því að deCODE (móðurfélag Íslenskrar erfðagreiningar) hafi gengið jafn illa fjárhagslega og raun ber vitni. Væntingar vegna erfðafræðirannsókna í tengslum við baráttu gegn sjúkdómum hafi ekki ræst. 

Blaðið segir að fyrirtækið hafi fljótt orðið leiðandi í heiminum í leitinni að orsökum algengra sjúkdóma. Vísindamenn þess hafi fundið stökkbreytingar sem tengist geðklofa, hjartasjúkdómum, sykursýki, krabbameini í blöðruhálskirtli og mörgum öðrum sjúkdómum. Beitt hafi verið þeirri aðferð að greina breytingarnar fyrst meðal Íslendinga og staðfesta þær síðan með rannsóknum á fólki í öðrum löndum.

„Hvað sem líður hugsanlegum viðskiptamistökum deCODE er mikilvæga ástæðu fyrir falli þess að finna í vísindunum - erfðafræðilegir þættir sjúkdóma í mönnum hafa reynst miklu flóknari en talið var," segir blaðið. „Margir vísindamenn gerðu ráð fyrir því að fáeinar stökkbreytingar gætu útskýrt flest tilfelli allra helstu sjúkdóma. En stökkbreytingarnar sem deCODE og fleiri fyrirtæki fundu í hverjum sjúkdómi reyndust aðeins útskýra örlítinn hluta tilfellanna."

DeCODE óskaði í fyrrakvöld eftir greiðslustöðvun. Samþykki bandarískur dómstóll beiðni félagsins  mun hefjast uppboðsferli. Saga Investments, félag í eigu erlendra fjárfesta, hefur þegar lagt fram bindandi tilboð í Íslenska erfðagreiningu, dótturfélag deCODE, en öðrum verður heimilt að bjóða í fyrirtækið. Gert er ráð fyrir því að kröfuhafar eignist um 20 prósenta hlut í fyrirtækinu.

Earl Collier mun taka við af Kára Stefánssyni sem forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar gangi áætlanir eftir. Collier hefur verið stjórnarmaður í DeCode Genetics, móðurfélagi ÍE, um árabil. Með aðkomu erlendra fjárfesta að ÍE á starfsemi fyrirtækisins að vera tryggð næstu tvö árin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert