Skatttekjur ríkisins verða um 24% af landsframleiðslunni á næsta ári og aukast um 50 milljarða króna, til viðbótar þeim liðlega tuttugu milljörðum sem aukalega er aflað á þessu ári.
Með breyttum tekjuskatti einstaklinga, breyttum virðisaukaskatti og vörugjöldum, nýjum umhverfis- og auðlindasköttum og hærra tryggingargjaldi má segja að glænýtt skattkerfi líti dagsins ljós.
Mun meiri skattbyrðar eru lagðar á millitekjufólk og hátekjufólk, en tekjuskattur er lækkaður á fólk með lágar tekjur. Fólk með mánaðartekjur undir 270 þúsund krónum og hjón undir 540 þúsund krónum borga lægri tekjuskatt en áður. Aðrir borga hærri tekjuskatt.
Formenn stjórnarandstöðuflokkanna gagnrýna skattaáformin. Forsvarsmenn úr atvinnulífinu eru fegnir því að dregið hafi úr skattahækkunum sem boðaðar voru. Ekki er reiknað með því að sveitarfélögin óski eftir heimild til að hækka útsvar.
Sjá ítarlega umfjöllun um skattamálin í Morgunblaðinu í dag.