Auglýst eftir lögreglumönnum

Stefnt er að því að fjölga lögreglumönnum við embættið.
Stefnt er að því að fjölga lögreglumönnum við embættið. mbl.is/Jakob Fannar

Þrjátíu og níu stöður eru nú auglýstar lausar við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Stefán Eiríksson lögreglustjóri segir að þær hagræðingaraðgerðir sem lögreglan hafi þurft að grípa til hafi skapað svigrúm til að fjölga lögreglumönnum við embættið.

Auglýst er eftir 18 lögreglumönnum til að sinna almennri löggæslu, 14 varðstjórum, þremur rannsóknarlögreglumönnum, þremur lögreglufulltrúum og einum lögreglumanni í umferðardeild.

„Að hluta til eru þetta stöður sem hafa verið mannaðar með tímabundnum hætti, sem eru þá að renna út um áramótin. Í ljósi þeirra hagræðingaraðgerða sem við höfum gripið til, sem hafa verið umfangsmiklar á þessu ári, þá skapast hjá okkur svigrúm, þrátt fyrir viðbótarniðurskurð á næsta ári, til þess að ráða lögreglumenn um áramótin og bæta örlítið í hópinn,“ segir Stefán í samtali við mbl.is.

Engin aukafjárveiting

Aðspurður segir Stefán að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki fengið aukafjármagn til þess að ráða fleiri lögreglumenn. Þá segir hann að ekki sé verið að ráða nýja menn sem komi í stað lögreglumanna sem hafi hætt störfum. 

Stefán bendir á að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi þurft að hagræða á þessu ári, sem nemi 10%. Það hafi m.a. verið gert með ýmiskonar skipulagsbreytingum. Breytingar hafi verið gerðar á vaktkerfum, deildir lagðar niður og laun lækkuð hjá starfsmönnum, svo nokkur dæmi séu nefnd.

„Þetta er að skila þeim árangri að við getum farið inn í nýtt ár, þrátt fyrir sjö prósenta niðurskurð eins og við okkur blasir, án þess að losa okkur við fólk. Það er auðvitað ánægjulegur árangur hjá þessum frábæru starfsmönnum embættisins,“ segir Stefán.

Stærsta hagræðingin felst í breyttu vaktkerfi

Hann segir að stærsta hagræðingin felist í breyttu vaktkerfi, sem hafi tekið gildi í haust. Með því náist um 150 milljón kr. hagræðing á næsta ári. Það sé hins vegar aðeins tímabundið skipulag sem verið sé að vinna í samvinnu við starfsmenn embættisins. „Það er svolítið undir þeim komið hvert framhaldið verður næsta haust. Þá þurfum við að fara yfir hvernig til hefur tekist og leggja á ráðin um næstu skref,“ segir Stefán.

Rekstraráætlun embættisins fyrir næsta ár var skilað til dómsmálaráðuneytisins í síðustu viku að sögn Stefáns. Hún byggi á þeim tölum sem komi fram í fjárlögum næsta árs, en skv. fjárlagafrumvarpinu eigi embættið að spara 225 milljónir kr. á næsta ári.

Stefán Eiríksson lögreglustjóri.
Stefán Eiríksson lögreglustjóri. mbl.is/Ómar
39 stöður eru auglýstar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
39 stöður eru auglýstar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert