Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir nýkynntar hugmyndir ríkisstjórnarinnar í skattamálum til þess gerðar að draga úr möguleikum á samsköttun hjóna. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir að varlega verði að fara í þessum málum enda geti full samsköttun orðið til þess að konur fari ekki eins mikið út á vinnumarkaðinn.
Umræður um málið fóru fram við upphaf þingfundar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks, tók einnig þátt og sagði ríkisstjórnina vera að auka álögur á heimilin og eyðileggja þá sprota sem þó eru að myndast.
Sigmundur sagði áhrifin af skattabreytingunum hafa gríðarleg óbein áhrif, m.a. með hækkun á vísiölu verðlags sem aftur hækka skuldir heimila og fyrirtækja. Hann sagði ríkisstjórnina brjóta niður þær stoðið sem þó voru sterkar og auka skuldabyrðina í mestu skuldakreppu sem orðið hefur, og sé líklega heimsmet.
Jóhanna sagði að það væri góð tilbreyting ef Sigmundur kæmi í ræðustól og tæki fram hvað hann vildi gera í stöðunni. Hún spurði á móti hvort yfirleitt væri hægt að gera betur. Sigmundur svaraði því til að Jóhanna hefði getað kynnt sér efnahagstillögur Framsóknarflokks eða jafnvel Sjálfstæðisflokksins. Þá sagði hann ríkisstjórnina hins vegar ekki hafa neinn áhuga á að hlusta á tillögur annarra.