Þorskárgangurinn 2008 sá sterkasti frá upphafi mælinga

2008 árgangurinn af þorski gæti verið sá sterkasti við Íslandsmið …
2008 árgangurinn af þorski gæti verið sá sterkasti við Íslandsmið frá upphafi mælinga fyrir þrettán árum síðan. Rax / Ragnar Axelsson

Árgangurinn af þorski frá árinu 2008 mælist mjög sterkur sem eins árs gamall fiskur, í Stofnmælingu botnfiska sem nú er nýlokið, á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá stofnuninni. Árgangurinn mælist sá sterkasti frá upphafi mælinga í stofnmælingu að haustið árið 1996. Það bendir til þess að árgangurinn gæti verið um eða yfir langtímameðaltali frá 1955. Fyrstu vísbendingar um 2009 árganginn af þorski gefa til kynna að hann sé hins vegar undir meðalstærð.

Hvað heildarstöðu þorskstofnsins varðar, mælist heildarvísitala hans svipuð og í fyrra, en það eru hæstu gildi frá árinu 1996. Þau eru þó ekki marktækt hærri en mældust árin 1998 og 2004. Í tilkynningu frá Hafró segir að aukningu í vísitölu nú, megi rekja til samdráttar í veiðum.
Lengdardreifing þorsks í ár samanborið við meðaltal áranna 1985-2009 sýnir að meira er af þorski stærri en 70 cm og staðfestir það mælinguna frá árinu 2008, en þá hafði aldrei fengist meira af stórum þorski.

Meðalþyngd þorsks eftir aldri hefur hækkað frá árinu 2007 hjá öllum aldursflokkum og er nú um eða yfir meðaltali haustrallsins 1996-2009 hjá 3 ára og eldri fiski. Holdafar þorsks (mælt sem þyngd slægðs fisks við tiltekna lengd, í þessu tilfelli 65 cm þorsks) lækkaði frá árinu 2008 og er nú nærri meðaltali haustrallsins 1996-2009.

Heildarmagn fæðu í mögum 35-55 cm þorsks var nú svipað og undanfarin ár. Hjá 55 cm og stærri fiski var heildarfæðumagnið lítið, semsagt líkt og verið hefur undanfarin tvö ár. Magn loðnu í þorskmögum allra stærðarhópa var svipað og undanfarin þrjú ár.

Til rannsóknanna voru að þessu sinni notuð rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunarinnar, Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson. Alls var togað á 397 stöðvum allt í kringum landið. Haustrallið fór fram dagana 28. september til 28. október síðastliðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert