Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, segir varasamt að hækka hámarkslán Íbúðarlánasjóðs. Hins vegar sé mikilvægt að finna annan farveg svo hægt sé að veita lán til kaupa á dýrara húsnæði. Þetta kom fram á Alþingi í dag.
Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Framsóknarflokks, spurði Árna Pál hvort ekki sé góð hugmynd að hækka hámarkslán úr 20 milljónum króna í 30 milljónir. Hann sagði 20 milljónir fáránlega lága upphæð þegar kemur að fasteignakaupum. Það yrði þá hugsanlega til þess að örva markaðinn.
Einnig spurði Guðmundur hvort ekki kæmi til greina að afnema stimpilgjöldin algjörlega.
Árni Páll sagði hækkun hámarksláns breyta eðli ÍLS og það væri varasamt. Hins vegar væri verið að fara í aðgerðir til að ráðast gegn vandanum, þannig að áhætta ríkisins og almennings sé lækkuð.