Ganga hefði átt lengra í því að lækka skatta á lágtekjufólk en gert er í tillögum ríkisstjórnarinnar um skattabreytingar á næsta ári. Þetta segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, í samtali við mbl.is
„Auðvitað það kemur ekki á óvart að þegar farið er í kerfi sem hefur hefur verið tillaga Alþýðusambandsins í tíu ár, þá teljum við ekki ástæðu til að skammast mikið yfir því," segir Gylfi og vísar í að þrepskipting er aukin í tillögum ríkisstjórnarinnar. Hann segir hins vegar að lengra hefði átt að ganga fyrir lágtekjufólkið. Upphaflegu hugmyndirnar sem ræddar hafi verið, um 36% skatt á tekjur alveg upp að 250 þúsund krónum á mánuði, hefði verið æskilegri niðurstaða.
Niðurstaðan er hins vegar sú að lægra skattþrepið nær upp að 200 þúsund krónum á mánuði og leiðir til skattalækkunar á fólk með 270 þúsund krónur á mánuði eða minna. Sú leið sem Gylfi hefði viljað sjá hefði hins vegar leitt til tekjuskattslækkunar fyrir fólk alveg upp að 340 þúsund krónum á mánuði. „Okkur þótti miður að það skyldi fara í þennan farveg. En niðurstaðan er samt mikilvæg og viljum að áfram verði unnið í þessa átt," segir Gylfi.
Alþýðusamband Íslands lýsir áhyggjum af umfangi skattahækkana á næsta ári og líklegum áhrifum þess á eftirspurn og atvinnustig í landinu, í fréttatilkynningu sem send var út í dag. ,,Þó ber að fagna því að stjórnvöld hafa komið til móts við gagnrýni ASÍ og dregið úr áformuðum skattahækkunum í fjárlögum um þriðjung eða 23-24 miljarða króna," segir þar. Einnig að á heildina litið hafi ríkisstjórnin staðið við markmið sín í stöðugleikasáttmálanum, við útfærslu beinna skattahækkana.
„ASÍ telur mikilvægt að sest verði að heildarendurskoðun skattkerfisins, m.a. með auknu jafnræði milli ólíkra tekjuforma á borð við atvinnutekjur og fjármagnstekjur. Fyrirhugaðar breytingar ættu að auðvelda slíka aðlögun," segir í tilkynningunni. Gylfi segir æskilegt að í framtíðinni komi skatttekjur ríkisins frekar af fjármagni og fyrirtækjum heldur en frá launafólki.
Lægri eignamörk og hærra skatthlutfall á eignafólk
ASÍ fagnar auðlegðarskattinum einnig sérstaklega. ,,ASÍ hefði þó gjarnan vilja sjá lægri eignamörk og hærra skatthlutfall," segir í tilkynningunni
„Varðandi áform um hækkun óbeinna skatta lýsir ASÍ miklum áhyggjum af áhrifum þeirra á verðbólgu, verðtryggingu og vaxtastig, en gera má ráð fyrir allt að 1% hærri verðbólgu vegna þessara áforma," segir í tilkynningunni. Aðspurður viðurkennir Gylfi að nauðsynlegt hafi verið að fara í einhverjar hækkanir á neyslusköttum. 0,8% verðlagsáhrif séu auðvitað mikil áhrif, en þau séu þó minni en 1,5% sem hefði getað orðið niðurstaðan ef önnur leið hefði verið farin.