Mótmæla skerðingu bóta

Unnið við álver í Helguvík.
Unnið við álver í Helguvík. Rax / Ragnar Axelsson

Hörð andstaða kom fram á fundi miðstjórnar Alþýðusambands Íslands í dag við hugmyndir um verulegar skerðingar á rétti fólks til atvinnuleysisbóta til þess að fjármagna virkar vinnumarkaðsaðgerðir, hvort sem er almenna lækkun bóta eða sérstakar skerðingar á réttindum ungs fólks.

Í ályktun frá fundinum er rifjað upp að ASÍ hafi lengi kallað eftir auknum framlögum stjórnvalda í virkar vinnumarkaðsaðgerðir - einkum þeirra sem veikasta stöðu hafa á vinnumarkaði.

„Miðstjórn ASÍ skorar á stjórnvöld að endurskoða forgangsröðun verkefna og tryggja meira fé til virkra vinnumarkaðsaðgerða, sérstaklega fyrir þá sem höllustum fæti standa, og hafnar alfarið hugmyndum um að skerða bætur þeirra sem eru án atvinnu. Jafnframt áréttar miðstjórn ASÍ vilja sinn til þess að fá að axla verulega ábyrgð á framkvæmd bæði atvinnuleysisbótakerfisins sem og virkar vinnumarkaðsaðgerðir, þannig að komast megi hjá skerðingu bóta og þjónustu,“ segir í ályktuninni.

Mótmæla þvingunum

Á fundinum kom einnig fram gagnrýni á, að einstaka fyrirtæki innan raða Samtaka atvinnuleysisins séu að þvinga starfsmenn sína til að falla frá þeim umsömdu launahækkunum, sem koma eiga til framkvæmda frá 1. nóvember.

„Almennt launafólk hefur undanfarna mánuði sýnt atvinnulífinu mikinn skilning á erfiðri stöðu fyrirtækjanna og í reynd axlað mikla ábyrgð á stöðu efnahagsmála með því að fresta umsömdum launahækkunum bæði á þessu ári og því næsta um sex til átta mánuði.

Það er því algerlega óviðunandi að einstaka fyrirtæki þakki fyrir sig með því að þvinga fólk til að afsali sér þessum hækkunum í skjóli óbeinna hótanna um atvinnumissi. Miðstjórn ASÍ krefst þess að frá þessu verði fallið og tryggt verði að allir félagsmenn njóti þeirra hækkana sem um var samið í kjarasamningunum í febrúar 2008,“ segir í ályktun miðstjórnar ASÍ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert