Prófkjör Samfylkingar í Reykjavík 30. janúar

Frá fyrra prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík.
Frá fyrra prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík. mbl.is/Ómar

Prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík, vegna borgarstjórnarkosninganna á næsta ári, verður 30. janúar 2010. Framboðsfresturinn rennur út þann 16. sama mánaðar. Þetta var samþykkt á fundi fulltrúaráðs flokksins í borginni í gær.

Í reglum fulltrúaráðsins er einnig tekið fram, í fjórðu grein, að frambjóðendur þurfi að greiða 50.000 króna þátttökugjald til að geta verið með. Að sögn Þorbjörns Guðmundssonar, formanns fulltrúaráðsins er það ekki nýmæli. Slíkt gjald, að sömu upphæð, hefur verið innheimt áður í prófkjörum flokksins og er ætlað að standa undir kostnaði við framkvæmd prófkjörsins.

Samkvæmt samtölum við framkvæmdastjóra Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs er allur gangur á því hvort frambjóðendur í prófkjörum þurfi að greiða þátttökugjöld.

Hjá VG hafa aldrei verið nein þátttökugjöld í forvali hjá flokknum neins staðar. Hjá Sjálfstæðisflokknum þurfa frambjóðendur stundum að greiða fyrir þjónustu sem flokkurinn veitir þeim í kosningabaráttunni, svo sem við uppsetningu kynningarefnis, ljósmyndun og fleira, en hjá Framsóknarflokknum er það mjög mismunandi eftir kjördæmum hvernig fyrirkomulag, stundum eru þátttökugjöld og stundum ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert