Rafmagnsbílar spara milljarða

Ef helmingur bílaflota borgarbúa yrði knúinn rafmagni myndi það skila allt að 5,4 milljarða króna sparnaði á ári í eldsneytiskaupum. Þetta kom fram á fundi um betri samgöngur í Hafnarhúsinu í morgun sem er hluti af fundarröð um endurskoðun aðalskipulags Reykjavíkur.

Fjölmenni var á fundinum þar sem  formaður skipulagsráðs, Júlíus Vífill Ingvarsson, kynnti fyrst áherslur í samgöngumálum við endurskoðun aðalskipulagsins og því næst fræddi Haraldur Sigurðsson, verkefnisstjóri hjá Skipulags-og byggingarsviði Reykjavíkur, fundargesti nánar um samgönguþátt endurskoðunarinnar, s.s. mun á ferðatíðni og umferðarálagi miðað við mismunandi þéttingarkosti í nýja aðalskipulaginu.

Ólafur Bjarnason, samgöngustjóri Reykjavíkur, kynnti samgöngustefnu borgarinnar sem er m.a ætlað að tryggja greiðar samgöngur um borgina án þess að ganga um of á verðmæti eins og umhverfi, heilsu og borgarbrag. Hann benti á að þétting byggðar styddi við uppbyggingu fjölbreyttari ferðamáta. Þá væru bílar almenn að minnka með aukinni notkun innlendra orkugjafa, eins og rafmagns, metans og metanóls, og það jákvæða við þessa þróun væri m.a. að bílarnir þyrftu minna rými og menguðu líka minna. Benti Ólafur á að ef helmingur bílaflota Reykvíkinga myndi nota rafmagn í stað jarðefnaeldsneytis sparaðist allt að 5,4 milljarðar króna á ári því rafmagnið á bílana myndi aðeins kosta 10% af því sem jarðaefnaeldsneytið myndi kosta, eða um 600 milljónir í stað 6 milljarða króna.

Stefán Finnsson yfirverkfræðingur hjá Umhverfis- og samgöngusviði ræddi um umferðaröryggi í Reykjavík og flokkun gatna eftir umferðarhraða. Fjallaði hann m.a. um hámarkshraða á götum í borginni og um breytingar á hluta Vesturgötu og Hafnarstrætis í vistgötur. Þá kynnti Pálmi Freyr Randversson, verkefnisstjóri á Umhverfis- og samgöngusviði, framtíðarsýn borgarinnar í hjólreiðamálum;áherslusvæði, flokkun hjólreiðaleiða, verkferil við gerð hjólastíga og nýtt hjólastígakort.

 

Síðust í pontu var Sigrún Helga Lund frá Samtökum um bíllausan lífsstíl og fór yfir breytingar sem þyrfti að gera til að öðrum samgöngumátum væri gert jafn hátt undir höfði og bílnum. Hún ræddi framtíðarstefnu í samgöngumálum, fækkun bílastæða og gjaldskyldu með tilliti til þess að það er ekkert sé til sem heiti „ókeypis bílastæði". Kom hún þar m.a inn á mikinn kostnað við bílastæði og mikið landrými og benti á að vel væri hægt að snúa við blaðinu og nefndi dæmi frá Kaupmannahöfn máli sínu til stuðnings.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka