„Yfirlýsing samtaka áhugafólks um náttúruvernd, sem lýsa vanþóknun á hvatningu
Suðurnesjamanna til þeirra sem vilja skapa atvinnu á Íslandi, er furðuleg og til marks um hve litlu sannleikurinn virðist skipta þetta ágæta fólk," að því er segir í tilkynningu frá hópi sem hefur auglýst gegn umhverfisráðherra að undanförnu.
Boðskapur hópsins á Suðurnesjum, sem hefur staðið fyrir þessum
hvatningarauglýsingum, hefur einfaldlega verið að lýsa stuðningi við skoðanir Samtaka atvinnulífsins, ASÍ, sveitarfélaga og framkvæmdaaðila. Þar er um að ræða sveitarfélög og samtök yfir 100 þúsund Íslendinga, að því er segir enn fremur í tilkynningu sem hópurinn hefur sent frá sér.
Í tilkynningu sem níu náttúruverndarsamtök sendu frá sér nýverið lýstu þau vanþóknun á „ómálefnalegri auglýsingaherferð fyrirtækja á Suðurnesjum gegn ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínur“.
Samtökin eru Náttúruverndarsamtök Vestfjarða, Náttúruverndarsamtök Austurlands (NAUST), SUNN, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, Sól á Suðurnesjum, Sól á Suðurlandi, Framtíðarlandið, Sól í Straumi, Náttúruverndarsamtök Suðurlands og Náttúruverndarsamtök Íslands. Í ályktuninni segir að álver í Helguvík með allt að 360 þúsund tonna ársframleiðslu með tilheyrandi orkuöflun og umhverfisáhrifum sé ekki einkamál Suðurnesjamanna.