Sendir ekki fyrirspurn til Norðurlanda vegna Icesave

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. Árni Sæberg

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, mun ekki senda forsætisráðherrum Norðurlandanna fyrirspurn vegna ummæla  framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þess efnis að Norðurlöndin hafi sett lausn Icesave-málsins sem skilyrði fyrir lánveitingu. Hún hafi rætt við þá um málið, oftar en einu sinni og oftar ein tvisvar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Jóhönnu út í málið á Alþingi í dag. Hún benti á að Domique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri AGS, hefði í síðustu viku sagt að AGS hafi aldrei sett það sem skilyrði að íslensk stjórnvöld yrðu að leysa Icesave-deiluna, áður en AGS tæki málefni Íslendinga til skoðunar. Tafir hafi orðið á fjármögnun lána frá Norðurlöndunum og lausn Icesave-deilunnar hafi verið skilyrði Norðurlandanna.

Þorgerður vildi því fá að vita hvers vegna Jóhanna sendir ekki formlega fyrirspurn til kollega sinna á Norðurlöndunum og spyrji hvers vegna staðið var í vegi fyrir því að lánin yrðu veitt.

Jóhanna sagði alveg ljóst að Norðurlandalánin eru hluti af efnahagsáætlun AGS. Það hafi orðið tafir á lánum og endurskoðun AGS og tengslin við Icesave óumdeilanleg. Hún þurfi ekki að skrifa til Norðurlanda um málið enda viti þetta allir. Þá sagðist hún ekki viss um að Norðurlöndin hafi aðeins staðið í vegi fyrir endurskoðuninni heldur frekar Hollendingar og Bretar.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í kjölfarið að einhverjir röskir forsætisráðherrar hefðu nú beitt sér í málinu og fengið úr því skorið hvers vegna Norðurlöndin töfðu málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert