Icesave-frumvarpið, sem nú er til umræðu á Alþingi, er í mikilli andstöðu við lögin um Icesave frá því ágúst síðastliðnum. Meirihluti fjárlaganefndar þingsins hefur nú haft vilja Alþingis, sem þá var lýst yfir, að engu með því að leggja til að nýja frumvarpið verði samþykkt án breytinga.
Þetta segir í minnihlutaáliti Sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd, sem birt var í dag. Álitið er samið af þeim Kristjáni Þór Júlíussyni, Einari Kristni Guðfinnssyni og Ásbirni Óttarssyni. ,,Þeir fyrirvarar sem mestu skiptu til að takmarka ríkisábyrgðina vegna Icesave-samninganna eru nánast að engu orðnir," segir í álitinu.
„Skuldbindingar íslenska ríkisins eru á ný orðnar óljósar og ófyrirsjáanlegar bæði hvað varðar fjárhæðir og tímalengd. Öllum má ljóst vera að fyrirvararnir sem settir voru fyrir ríkisábyrgðinni í haust geta ekki verið réttlæting fyrir því að samþykkja ríkisábyrgðina samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi," segir enn fremur þar.
Og þingmennirnir hvetja einnig Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, til þess að taka í taumana ef frumvarpið fer óbreytt í gegn:
„Með því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar hafa þeir fyrirvarar Alþingis sem forsetinn taldi svo mikilvæga þegar hann staðfesti hin fyrri Icesave-lög, og voru forsenda staðfestingar hans, verið að engu gerðir.
Verði frumvarpið samþykkt óbreytt sem lög frá Alþingi, eins og meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að gert verði, telur 3. minni hluti einsýnt að forseti lýðveldisins muni, í ljósi fyrri yfirlýsingar, synja lögunum staðfestingar, með vísan til hennar og 26. gr. stjórnarskrárinnar.
Synji forseti lögunum staðfestingar er ljóst að Icesave-málið mun ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu," segja Sjálfstæðismennirnir í áliti sínu.
Minnihlutaálit Sjálfstæðismanna í fjárlaganefnd í heild sinni