Staða ýsustofnsins slök

Stórýsa í Steingrímsfirði. Mynd úr myndasafni.
Stórýsa í Steingrímsfirði. Mynd úr myndasafni. Þorkell Þorkelsson

Samkvæmt haustralli Hafrannsóknastofnunarinnar er staða ýsustofnsins slök. Heildarvísitala ýsu lækkaði um 20% frá árinu 2008 og er nú ríflega helmingur af því sem hún var árið 2004, þegar hún náði toppi. Fyrstu mælingar á árganginum frá 2009 benda til að hann sé slakur.

Vísitalan er svipuð og hún var árin 2001-2002, en er þó enn há miðað við það sem hún var fyrir árið 2001. Vægi árgangsins frá 2003 fer minnkandi og er nú um 35% af heildarvísitölunni, en var á árunum 2006-2008 um helmingur hennar.

Lengdardreifing sýnir að meira er af ýsu á bilinu 30-40 cm en árið 2008, en mun minna af 40-50 cm ýsu. Svipað er af stærri ýsu. Meðalþyngd ýsu eftir aldri undanfarin tvö ár hækkaði hjá 2-5 ára ýsu en lækkaði hjá 6-8 ára ýsu. Meðalþyngd allra aldurflokka nema 3 ára er undir meðaltali stofnmælinganna og hjá 6-8 ára ýsu er hún sú lægsta síðan mælingar hófust árið 1996. Holdafar ýsu, mælt sem slægð þyngd 45 cm fiska, er nærri meðaltali áranna 1996-2009. Holdafar ýsu fyrir norðan land hefur batnað mikið frá árinu 2005, er nú svipað og á árunum 1996-2001 og svipað því sem nú er fyrir sunnan land.

Svipuð staða í karfanum og áður

Einnig kemur fram í fréttatilkynningu frá Hafró, að heildarvísitala gullkarfa í haustmælingunni hefur verið frekar stöðug frá árinu 1996 og breytileiki milli ára að mestu innan skekkjumarka, en skekkjumörkin eru frekar mikil í mælingunni. Gullkarfi sem fæst í stofnmælingu botnfiska að haustlagi er á bilinu 4-55 cm, en er þó lang mest á lengdarbilinu 30-40 cm. Þó lítið fáist af gullkarfa minni en 10 cm virðist magn hans vera vísbending um nýliðun í gullkarfastofninn. Árið 2009 er magn smæsta gullkarfans mjög lítið líkt og undanfarin ár og er aðeins brot af því sem það var árin 1998 og 1999. Sem fyrr fékkst mest af gullkarfa út af Vesturlandi (15. mynd).

Einungis er hægt að bera saman árin 2000-2009, þar sem rannsóknasvæðið 1996-1999 náði ekki yfir útbreiðslu djúpkarfa við Ísland. Heildarvísitala djúpkarfa hefur verið svipuð síðan 2002. Á Íslandsmiðum er einungis að finna veiðistofn djúpkarfa og því ekki hægt að meta nýliðun.

Betra útlit með grálúðuna - en ástandið samt mjög lélegt

Fjöldi ungfisks meðal grálúðu er sá mesti sem sést hefur síðan mælingar hófust árið 1996 og gefur það vísbendingu um að veiðistofninn muni líklega stækka á næstu árum.

Vísitala 55 cm og stærri grálúðu árin 2003-2008 var mjög lág miðað við árin 1997-2001. Síðan 2007 hefur vísitalan verið að aukast og árið 2009 var hún svipuð og 2003. Óvenjumikið fékkst af ókynþroska grálúðu á lengdarbilinu 35-50 cm. Grálúða minni en 35 cm fæst ekki í stofnmælingu að hausti þar sem rannsóknasvæðið nær ekki yfir uppeldisslóð grálúðu. Þrátt fyrir hækkun vísitölu 55 cm og stærri grálúðu og vísbendingar um góða nýliðun undanfarin ár er ástand stofnsins þó talið mjög lélegt.
Aðrar tegundir

Í stofnmælingu að hausti árið 2009 lækkuðu stofnvísitölur steinbíts og skarkola samanborið við árið 2008. Þess ber að geta að stofnvísitala skarkola árið 2008 var mjög há og að frá árinu 2006 hefur vísitalan farið hækkandi. Stofnvísitölur löngu, langlúru og skötusels eru svipaðar og árið 2008 og þær hæstu síðan mælingar hófust árið 1996. Það sama er að segja um stofnvísitölur blálöngu og keilu en þær hækka milli ára.

Niðurstöður mælingarinnar sem Hafró kynnir nú, eru mikilvægur þáttur árlegrar úttektar stofnunarinnar á ástandi nytjastofna við landið sem lýkur í júní n.k, en þar munu jafnframt lagðar til grundvallar niðurstöður stofnmælingar botnfiska í mars (togararalli), stofnmælingar þorsks á hrygningartíma (netaralli), auk upplýsinga um aldursamsetningu afla og aflabrögð fiskiskipa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert