Stærstu mistök Íslandssögunnar

Höskuldur Þórhallsson.
Höskuldur Þórhallsson. Heiðar Kristjánsson

Ef fullyrðingar meirihluta fjárlaganefndar reynast réttar um að fyrirvararnir séu betri eftir nýja samningslotu er það nöturleg staðreynd að Breta og Hollendinga þurfti til að gæta hagsmuna Íslendinga. Þetta sagði Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks, við umræður um Icesave á Alþingi í dag.

Höskuldur sagði það auðvitað alvitlaust að halda því fram að fyrirvararnir séu betri. Bretar og Hollendingar gættu fyrst og fremst hagsmuna sinna borgara og fyrirvararnir hafi lítið sem ekkert gildi eftir breytingarnar.

Höskuldur sagði að ef frumvarpið verður að lögum muni það hafa mikil áhrif á lífskjör Íslendinga næstu áratugi. Ábyrgðin á greiðslum verði óendanleg í tíma og tekur ekki enda fyrr en allt hefur verið greitt upp af Íslands hálfu – án þess að tekið verði tillit til aðstæðna hér á landi.

Í áliti Höskuldar segir að hann telji að með málinu sé verið að gera stærstu mistök Íslandssögunnar. Aldrei hafi ríkisstjórnin reynt að tala máli þjóðarinnar á erlendum vettvangi og þessi ákvörðun kunni að valda því að lífsskilyrði á Íslandi verði verri til fleiri ára en vera þyrfti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert