Stjórn KSÍ aðhefst ekki frekar

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ.
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ. Árni Sæberg

Stjórn Knattspyrnusambands Íslands mun ekki aðhafast frekar vegna máls Pálma Jónssonar, fjármálastjóra sambandsins. Hann fékk 3,2 milljóna króna kreditkortareikning eftir ferð á strípiklúbb í Zürich í Sviss fyrir fjórum árum síðan, þar sem greiðslukort KSÍ var notað. Í yfirlýsingu biður stjórn KSÍ þjóðina afsökunar á málinu.

Í kvöldfréttum RÚV sagði Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ að með niðurstöðunni sé ekki verið að leggja blessun stjórnarinnar yfir framferði Pálma.

Eftirfarandi er tilkynning stjórnar KSÍ, eftir fund hennar í kvöld:

„Fyrir um fjórum árum voru teknar út tæpar þrjár milljónir kr. í miðborg Zürich af kreditkorti í eigu KSÍ, en það var í vörslu fjármálastjóra KSÍ.  Fjármálastjórinn gekkst við þeirri ábyrgð sem fylgir því að hafa kort KSÍ undir höndum, greiddi upphæðina beint til kreditkortafyrirtækisins þannig að KSÍ bar ekki fjárhagslegan skaða af þessum úttektum. Fjármálastjórinn baðst afsökunar og fékk áminningu, skv. ákvörðun æðstu stjórnarmanna KSÍ, sömu aðilar ákváðu einnig að hann héldi áfram í starfi enda var ferill hans flekklaus fram að þeim tíma.

Fjármálastjórinn hefur undangengin ár reynt að leita réttar síns þar sem hann taldi á sér brotið og hefur orðið nokkuð ágengt. M.a. hefur hann fengið um helming fjárins endurgreiddan frá einstaklingum sem voru aðilar að málinu.

Stjórn KSÍ hefur móttekið afsökunarbréf fjármálastjórans, dags. 17. nóvember 2009 þar sem hann harmar að nafn KSÍ hafi fengið neikvæða umfjöllun vegna málsins en jafnframt ítrekar hann sakleysi sitt hvað varðar notkun kortsins.  Eftir að hafa rætt málavexti á fundi sínum þann 19. nóvember 2009 og í ljósi þess að starfsmaðurinn var áminntur á sínum tíma mun stjórnin ekki aðhafast frekar í máli hans.

Samkvæmt lögum KSÍ ber því að vera leiðandi afl fyrir íslenska knattspyrnu og fulltrúum þess ber að koma fram af heiðarleika og sýna gott siðferði. Í því tilfelli sem hér um ræðir missteig fjármálastjórinn sig og hlaut refsingu sem metin var hæfileg á þeim tíma. Það er staðföst skoðun KSÍ að gott siðferði sé mikilvægt veganesti í starfi íþróttahreyfingarinnar en það er ekki síður mikilvægt að þegar menn hafa misstigið sig og tekið út sinn dóm að horfa fram á veginn, fyrirgefa og læra af þeim mistökum sem gerð voru.

Stjórn KSÍ hefur í dag ákveðið að skipa starfshóp með það að markmiði að nýjar siðareglur KSÍ taki gildi 1. janúar nk., en slíkt er í samræmi við kröfur FIFA til aðildarsamtaka sinna. Stjórn KSÍ mun síðan standa fyrir kynningu á þeim reglum en markmiðið er ávallt að fulltrúar KSÍ séu til sóma á innlendum sem erlendum vettvangi.

Stjórn KSÍ áréttar að KSÍ hafnar ofbeldi af öllum toga og er grunnur lagður að siðferðisyfirlýsingu KSÍ í grein 2.2. í lögum sambandsins en þar segir: KSÍ starfar að öllu leyti sjálfstætt og er hlutlaust varðandi stjórnmál og trúarbrögð. KSÍ skal gæta jafnræðis og jafnréttis.  Skulu allir vera jafnir fyrir lögum og reglugerðum KSÍ og njóta réttinda án tillits til kynferðis, kynhneigðar, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Knattspyrnusamband Íslands stendur í þakkarskuld við íslenska þjóð sem hefur um langa tíð stutt vel við knattspyrnuíþróttina. Stjórn KSÍ harmar tildrög þessa máls og biður þjóðina, knattspyrnuhreyfinguna og aðildarfélög sín afsökunar á því.“


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka