Í félagsmálaráðuneytinu eru nú til skoðunar leiðir til að virkja atvinnulaus ungmenni og koma í veg fyrir að þau verði óvirkir samfélagsþegnar vegna langvarandi atvinnu- og aðgerðaleysis.
Á Íslandi hefur verið há tíðni brottfalls úr framhaldsskólum og hefur fólk þá vanalega sótt í vinnu í staðinn en nú þegar enga vinnu er að fá situr það uppi aðgerðalaust. Þetta þýðir að ungmenni öðlast hvorki menntun né starfsreynslu og því hætt við að þau verði ekki eftirsótt til vinnu jafnvel þegar atvinnustigið kemst aftur í fyrra horf.
Staðan hefur ekki áður verið jafnslæm, því þótt atvinnuleysi hafi áður þekkst meðal ungmenna hefur það ekki náð sömu hæðum og nú.
Á 10. áratugnum fór atvinnuleysi ungmenna hratt vaxandi á Norðurlöndunum. Á Íslandi og í Noregi náði það hámarki í 5-6% áður en það tók að lækka aftur en verst varð ástandið í Finnlandi þar sem 17% ungmenna voru atvinnulaus og hafa mörg þeirra aldrei náð sér á strik heldur verið á örorkubótum síðan.
Á Íslandi er hlutfall atvinnulausra ungmenna nú 18% og því ljóst að aðgerða er þörf sé vilji til að koma í veg fyrir að reynsla Finna endurtaki sig hér. Að frumkvæði félags- og tryggingamálaráðuneytisins hefur síðan í september verið starfandi vinnuhópur ráðuneyta og sérfræðinga sem hafa skoðað stöðu ungra atvinnulausra Íslendinga Þar á meðal voru settir á rýnihópar meðal ungmenna á aldrinum 18-24 ára til að kanna reynslu þeirra.
Að sögn Steinunnar Halldórsdóttur verkefnisstjóra er þegar farið af stað hættulegt ferli hjá mörgum þeirra. „Þau eru farin að snúa sólarhringnum við, reykja meira, fara dofin í gegnum daginn. Vinnumálastofnun hefur ekki haft bolmagn til að hafa reglubundið samband við þau svo þau hafa fengið að vera aðgerðalaus og svolítið afskipt.“
Bætur skertar til að koma fólki af stað
Að sögn Gissurar Péturssonar, forstjóra Vinnumálastofnunar, er margt í boði á formi námskeiða og tímabundinnar vinnu. Eftirspurnin hefur hins vegar ekki verið í samræmi við framboðið og þarf unga fólkið sérstaklega dyggan stuðning og hvata til að koma sér af stað. Aðgerðirnar eru enn í vinnslu en skýrsla vinnuhópsins verður birt í næstu viku.
Í Bretlandi og Frakklandi hafa stjórnvöld gripið til þess ráðs að verja miklum fjármunum til að skapa ungu atvinnulausu fólki tímabundnar lærlingsstöður eða námstækifæri til að örva það og virkja þar til efnahagurinn tekur aftur við sér.
Þetta hefur þó mælst misvel fyrir og hefur m.a. verið gagnrýnt að þótt aðgerðirnar haldi ungmennum vissulega uppteknum öðlist þau ekki þar með nægilega færni og reynslu til að verða samkeppnishæf á vinnumarkaði síðar meir.