Frumvarp til laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins (Barnasáttmálann) liggur nú fyrir í samræmi við þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi 16. mars síðastliðinn. Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra hefur kynnt frumvarpið fyrir ríkisstjórn og stefnt er að framlagningu þess á Alþingi innan tíðar.
Til að hægt sé að falla frá yfirlýsingu sem gerð var við fullgildingu samningsins hér á landi hefur ráðherra sett á fót starfshóp til að koma með tillögur að fyrirkomulagi á vistun ungra fanga sem væri í samræmi við Barnasáttmálann.
Samningurinn um réttindi barnsins var undirritaður af Íslands hálfu
26. janúar 1990 og fullgiltur 28. október 1992. Hann öðlaðist gildi
gagnvart Íslandi 27. nóvember 1992. Við fullgildingu samningsins var
litið svo á að íslensk löggjöf væri í samræmi við ákvæði hans og var
hann því fullgiltur án fyrirvara af hálfu Íslands, en lagðar voru fram
sérstakar yfirlýsingar vegna tveggja ákvæða, önnur varðandi ákvarðanir
um aðskilnað barna og foreldra og hin varðandi aðskilnað ungra fanga
frá fullorðnum.
Ísland hefur nú fallið frá fyrri yfirlýsingunni þar sem gerðar hafa
verið lagabreytingar sem samræmast ákvæðum samningsins. Hin
yfirlýsingin stendur eftir og hefur dómsmála- og mannréttindaráðherra
sett á fót áður nefndan starfshóp, sem í eiga sæti fulltrúar
ráðuneytisins, Barnaverndarstofu og Fangelsismálastofnunar. Hópurinn
hefur það hlutverk að koma með tillögur að fyrirkomulagi um vistun
ungra fanga sem væri í samræmi við Barnasáttmálann svo unnt sé að falla
frá yfirlýsingunni, að því er segir á vef dómsmálaráðuneytisins.