Læknaráð Landspítala segist hafa miklar áhyggjur af þeim sparnaði, sem framundan sé á spítalanum á næsta ári.
Segir ráðið, að jafnvel í góðæri undanfarinna ára hafi fjárveitingar til Landspítalans lækkað að raunvirði og á næsta ári sé gert ráð fyrir meira en þriggja milljarða króna samdrætti, sem sé um 9% skerðing. Því sé vandséð að komist verði hjá verulega skertri þjónustu og uppsögnum á Landspítala.
„Þegar kreppir að þurfa stjórnvöld að líta til þess hvaða þættir ríkiskerfisins eru almenningi mikilvægastir til lengri tíma litið og þeim ber að hlífa eins og kostur er," segir í ályktun ráðsins.
Almennur fundur læknaráðs Landspítala var í dag þar sem fjallað var um rekstur og fjárveitingar til Landspítalans. Fram kom hjá Birni Zoëga, forstjóra spítalans, að allt stefnir nú í að höfuðstóll Landspítalans verði neikvæður um tæpa þrjá milljarða króna og staða sjúkrahússins sé nánast vonlaus nema auknar fjárveitingar komi til.
Í ályktun læknaráðsins segir, að Landspítalinn sé aðalsjúkrahús landsins lögum samkvæmt og spítalanum beri að veita sérhæfða sjúkrahúsþjónustu fyrir alla landsmenn, almenna þjónustu fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins og annast auk þess umtalsverða kennslu og vísindastarfsemi.
„Sem meginstoð íslenska heilbrigðiskerfisins hefur Landspítalinn algera sérstöðu og getur því engum sjúklingahópum vísað frá sér. Brýnt er að hafa þessa sérstöðu spítalans í huga þegar fjárveitingar eru ákveðnar. Einnig er rétt í þessu samhengi að minna á nýlegar tillögur um endurskipulagningu á starfsemi sjúkrahúsa á suðvesturhorni landsins, sem leitt geta til verulegs sparnaðar í heilbrigðiskerfinu," segir í ályktuninni.