Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna, fagnar því að ákvörðun um makrílafla hafi verið tekin snemma. Ákvörðunin var birt í dag og hljóðar þannig að fari heildarafli íslneskra skipa yfir 130.000 tonn ákveði ráðherra hvort veiðar skuli bannaðar eða takmarkaðar með einhverjum hætti.
Friðrik telur hins vegar að rétt hefði verið að miða við hærri heildarafla en gert er. Hann segir mikilvægt að veiðistjórnun verði þannig að hámarksverðmæti náist fyrir aflann. Þetta kemur fram í frétt sem birt er á vef LÍÚ.
ESB, Noregur og Færeyjar funda í næstu viku um stjórn makrílveiða á árinu 2010. Friðrik segir að sem fyrr sé strandríkisréttur Íslands hunsaður og Íslendingar útilokaðir frá þátttöku í stjórn veiðanna, þrátt fyrir skýlausan rétt þar um, að því er fram kemur í frétt LÍÚ. Mikilvægt hafi verið að tilkynna um aflann fyrir fundinn, svo að þessir aðilar geti tekið tillit til hans við ákvörðun sinnar heildarveiði.