OR skrifar undir lánasamning

Eva Srejber skrifar undir lánasamninginn. Við borðið sitja einnig Guðlaugur …
Eva Srejber skrifar undir lánasamninginn. Við borðið sitja einnig Guðlaugur Sverrisson, stjórnarformaður OR og Hjörleifur Kvaran, forstjóri.

Fulltrúar Orkuveitu Reykjavíkur og Evrópska fjárfestingabankans (EIB) skrifuðu í dag undir samning um fjármögnun áframhaldandi uppbyggingar jarðhitanýtingar á Hengilssvæðinu. Bankinn lánar 170 milljónir evra, sem svarar til 31 milljarðs króna, til 5. áfanga Hellisheiðarvirkjunar og Hverahlíðarvirkjunar.

Samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitunni kom Eva Srejber, aðstoðarbankastjóri EIB, hingað til lands til að skrifa undir samninginn og fór undirritunin fram í Hellisheiðarvirkjun. Vitnað er í frétt frá bankanum um að lánveitingin sé í takti við þá stefnu Evrópusambandsins, eiganda bankans, að stuðla að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og draga þannig úr gróðurhúsaáhrifum.

Fyrir hönd Orkuveitu Reykjavíkur skrifuðu undir samninginn þeir Guðlaugur G. Sverrisson stjórnarformaður og Hjörleifur B. Kvaran forstjóri. Haft er eftir Guðlaugi, að fjármögnunarsamninginn marki vatnaskil en þetta sé fyrsti samningurinn af þessum toga sem íslenskt fyrirtæki, sem ekki er í ríkiseigu, geri frá hruni íslenska fjármálakerfisins fyrir rúmu ári.

Hann segir að hundruð starfa muni skapast við uppbygginguna sem framundan sé og þau störf muni afla gjaldeyristekna um langa framtíð.

Upphaflega var ráðgert að ganga frá samningi um fjármögnun EIB fyrir ári. Hrun íslenska bankakerfisins kom í veg fyrir það og við hrunið fór Orkuveita Reykjavíkur á athugunarlista bankans. Eftir nákvæma skoðun áhættugreiningardeildar bankans á Orkuveitu Reykjavíkur, fjárhag fyrirtækisins, rekstri og rekstrarhorfum, var fyrirtækið tekið af athugunarlistanum nú í haust. Í framhaldi af því hefur verið unnið að formlegum frágangi fjármögnunarsamningsins, sem undirritaður var í dag.

Fjármunirnir verða nýttir til uppbyggingar 5. áfanga Hellisheiðarvirkjunar. Hann er í byggingu og er áformað að taka hann í notkun síðla árs 2011. Orka frá honum, 90 megavött rafafls, er þegar seld Norðuráli.

Þá felst í samningnum fjármögnun helmings fyrirhugaðrar virkjunar í Hverahlíð. Hún er einnig 90 megavött og orka frá henni ætluð til Helguvíkurverkefnisins. Ekki verður tekin ákvörðun um að ráðast í virkjunina fyrr en fjármögnun hefur verið tryggð að fullu og framleiðslan seld.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka