Meistarafélag iðnaðarmanna í Hafnarfirði (MIH) segir að upplýsingar VSÓ ráðgjafar um ónotað íbúðarhúsnæði standist ekki. MIH hafi kannað ástandið í þessum efnum i Hafnarfirði og í ljós hafi komið 39% munur á þeim niðurstöðum og tölum VSÓ, segir í fréttatilkynningu frá MIH.
,,VSÓ hefur viðurkennt að okkar tölur gefi rétta mynd en við vildum vekja athygli á þessu vegna þess að þessi leiðrétting hefur að okkar mati ekki komi fram í fjölmiðlum," segir Ágúst í samtali við mbl.is. Hann segist ekki vita hvort einnig sé ástæða til að efast um tölur VSÓ varðandi framboð á ónotuðu húsnæði annars staðar, t.d. í Reykjavik.
,, Í stuttu máli sagt reyndist vera 39% munur á talningu VSÓ og talningu MIH til minnkunar á framboði húsnæðis í Hafnarfirði. Þessum athugasemdum var þegar komið á framfæri við VSÓ," segir í fréttatilkynningu MIH.
,,MIH vill því vekja athygli á því að VSÓ hefur endurtalið ónotað íbúðarhúsnæði í Hafnarfirði og reyndist sú talning vera nánast samhljóða talningu MIH frá því í október sl. Ekkert hefur þó borið á leiðréttingu þessa efnis og því þykir MIH afar áríðandi og tilefni til þess að þeir sem hafa fjallað um þetta efni, fjölmiðlar sem og fjármálastofnanir, berist leiðrétting vegna þessa.
Það ætti öllum að vera ljóst að þegar fjallað er um jafn þýðingarmikið efni, sem þetta er, að allar upplýsingar séu sem réttastar svo réttlát yfirsýn fáist yfir málefnið."