Segir norska lánið til reiðu

Jonas Gahr Støre
Jonas Gahr Støre mbl.is/Brynjar Gauti

Lán Norðmanna og annarra norrænna þjóða til Íslendinga var til umræðu á norska þinginu í gær. Var Jonas Gahr Støre utanríkisráðherra m.a. spurður hvort það væri rétt sem sagt væri í fjölmiðlum að Norðmenn myndu ekki greiða féð fyrr en Íslendingar hefðu fallist á Icesave-lausn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gefið ótvírætt, grænt ljós.

 Spyrjandinn, Peter Myhre úr Framfaraflokknum, sagði að margt væri enn óljóst um málið og vísaði þá til frétta um að Seðlabankinn hér á landi hefði ekki enn fengið féð.

Støre sagði að Íslendingar gætu nú notað norska lánið og sagði að túlka mætti ummæli yfirmanns AGS, Dominique Strauss-Kahns, á ýmsa vegu en hann hefur gefið í skyn að Norðurlöndin hafi sett skilyrði um lausn Icesave. ,,Er það svo að annar aðilinn hafi haft hemil á hinum?" sagði Støre. ,,En reyndin er sú að þessi norræni lánapakki til Íslands var tilbúinn þegar AGS hafði fjallað um hann á stjórnarfundi sínum. Það gerðist 28. október og þá var þetta tilbúið."  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert