Slökkviliðsmenn mótmæla

mbl.is/ÞÖK

Slökkviliðsmenn á höfuðborgarsvæðinu mótmæla því harðlega að störf slökkviliðsmanna séu  lögð af  og ófaglærðir starfsmenn ráðnir í staðinn. Slökkviliðsmaður er lögverndað starfsheiti líkt og kennari og hjúkrunarfræðingur. Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á félagsfundi slökkviliðsmanna í gær. Aðalfundur BSRB tekur undir ályktun slökkviliðsmannanna, að því er segir á vef BSRB.

„Það hlýtur að vera réttur þeirra sem ferðast um flugvelli landsins að þeir njóti besta öryggis sem völ er á en ekki ófaglærðum flugvallarvörðum sem Flugstoðir hafa hnoðað saman í hugmyndasmiðju sinni og hampa á opinberum vettvangi sem Skandínavískri aðferð sem ekki finnast í neinum lögum og skilgreiningum hérlendis né erlendis eins og Flugstoðir túlka þær.

Sú áhætta sem er tekin með mannslíf er óásættanleg fyrir þá sem um flugvöllinn fara.  Það að ófaglærðum starfsmönnum séu falin lögvernduð störf, og sú ábyrgð sem þeim fylgir, er algerlega óásættanlegt og brot á lögum nr. 75/2000 um brunavarnir.

Því skorum við á Kristján Möller samgönguráðherra að stöðva hið fyrsta þetta fyrirhugaða lögbrot og skerðingu á öryggi þeirra sem um flugvöllinn fara. Annars hlýtur hann að teljast ábyrgur á brotum á lögum um brunamál.

Slökkviliðsmenn munu ekki líða undir neinum kringumstæðum að brotið sé á þeim og að öryggi fólks sé stefnt í hættu og munu gera allt til þess að koma í veg fyrir slík mistök.

Einnig skorum við á sveitarstjórnarmenn á höfuðborgarsvæðinu að taka málin í sínar hendur til þess að vernda og gæta öryggis íbúa höfuðborgarsvæðisins  sem og þeirra sem um flugvöllinn fara og sjá til þess að störf lögvarinna slökkviliðsmanna á flugvellinum verði ekki lögð niður. Falli Flugstoðir ekki frá þessum fyrirhuguðu breytingu væri betra að sveitarfélögin tækju reksturinn yfir eða flugumferð á Reykjavíkurflugvelli verði stöðvuð frá og með 1. mars 2010."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert