Persónuvernd telur ekki, að ríkisskattstjóri hafi lagaheimild til að fá aðgang að myndum úr eftirlitsmyndavélum við bensínstöðvar. Persónuvernd komst að þessari niðurstöðu þegar stofunin var spurð hvort ríkisskattstjóri mætti fá umræddar myndir í tengslum við eftirlit með notkun á litaðri olíu.
Persónuvernd vísar til skattalaga og segir að að ákvæðum þeirra megi ráða, að ríkisskattstjóri fari með ákveðna yfirstjórn sem æðri handhafi stjórnsýsluvalds þegar kemur að eftirliti sem kveðið er á um í skattalöggjöfinni.
Í lögreglulögum sé hins vegar talið upp hverjir séu handhafar lögregluvalds og sé ríkisskattstjóri ekki þeirra á meðal. Því sé ekki unnt að beita ákvæðum þeirra laga um afhendingu myndefnis ef um refsiverðan verknað er að ræða.
Að mati Persónuverndar hefur ríkisskattstjóri því ekki sömu heimild og lögregla til vinnslu og miðlunar persónuupplýsinga í þágu rannsóknar máls.