Hindrunum verði rutt úr vegi Suðvesturlínu

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. mbl.is/Golli

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar sem nú stendur yfir í Reykjanesbæ, að hún væri þess fullviss, að hindrunum verði fljótlega rutt úr vegi Suðvesturlínu,  sem sé mikilvægt fyrir framkvæmdir á Reykjanesi.

Jóhanna sagðist einnig gera sér góðar vonir um, að vinna við Búðarhálsvirkjun hefjist með vorinu en orku frá henni verði að verulegu leyti ráðstafað til endurnýjaðs álvers í Straumsvík. Allar horfur væru  á því að Rio Tinto Alcan hefji innan tíðar tveggja ára verkefni við endurnýjun rafbúnaðar í álverinu í Straumsvík sem muni skapa 600 ársverk meðan á því stendur.

Jóhanna sagði í ávarpi sínu á fundinum, að atvinnumál hljóti að verða helsta baráttumál jafnaðarmanna í komandi sveitarstjórnarkosningum. Lagði hún þar mikla áherslu á uppbyggingu með hjálp vistvænnar orku.  

Læra á Fésbók

Töluvert virðist lagt upp úr því að flokksmenn Samfylkingar komi sér upp Facebook-vefsíðum, en einn liður á dagskrá flokksstjórnarfundarins nefnist „Örnámskeið í notkun á samskiptavefnum Facebook“.

Segir Samfylkingarfólk sem blaðamaður hefur rætt við, að flokkurinn líti svo á að Facebook sé tilvalinn vettvangur fyrir flokkinn til að kynnast ungum kjósendum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert