Jólasveinarnir komnir í Dimmuborgir

Ljósmynd / Birkir Fanndal

Opnunarhátíð verkefnisins „Mývatnssveit - töfraland jólanna“ var haldin í Dimmuborgum á laugardaginn. Íslensku jólasveinarnir bera hitann og þungann af dagskránni og gerðu það sannarlega með miklum glæsibrag í ágætis veðri í dag.

Lognkyrrt var en þokuslæða sveipaði borgirnar hæfilegri dulúð. Dagskráin var keyrð tvisvar sinnum, fyrst klukkan eitt og svo klukkan þrjú, en hún tekur um eina klukkustund hvert sinn.

Alls komu um 500 gestir og nutu útiveru í borgunum, söngs og spjalls við jólasveinana, sem voru mættir, allir níu, í sínum íslensku vaðmáls- og prjónafötum.

Ferðaþjónustan í sveitinni kemur sameiginlega að verkefninu og björgunarsveitin er til staðar. Í Skjólbrekku var boðið upp á skemmtiatriði fyrir börn og ókeypis veitingar að lokinni dagskrá í Dimmuborgum. Veitingahúsið Borgir sem opnað var í sumar við Dimmuborgir er með fjölbreytta þjónustu alla daga, veitingar og minjagripi,  sömuleiðis Vogafjós og Pizzustaður Dadda, Dyngjan handverkshús, nýverðlaunað Fuglasafn Sigurgeirs og að sjálfsögðu jarðböðin.

Jólasveinarnir verða boðnir og búnir að skemmta krökkum í Dimmuborgum á hverjum degi allt fram til jóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka