Sérfræðingar sem Morgunblaðið hefur leitað til eru sammála um að nái samkomulag vegna skiptingar eigna og skulda milli gamla og Nýja Landsbankans fram að ganga muni það að öllu óbreyttu valda verulegum neikvæðum þrýstingi á gengi krónunnar.
Rammasamkomulag sem kynnt var í síðasta mánuði felur meðal annars í sér að Nýi Landsbankinn gefi út 260 milljarða króna gengistryggt skuldabréf til tíu ára. Ljóst er að bankinn þarf að greiða árlega að meðaltali 26 milljarða króna í gjaldeyri vegna afborgana, auk vaxta.
Þetta þýðir að Landsbankinn þarf að selja krónur í skiptum fyrir gjaldeyri í auknum mæli, sem að öðru óbreyttu ætti að verða til þess að veikja gengi krónunnar. Á sama tíma grípur Seðlabankinn til aðgerða til að styðja við gengið.