Skapandi eyðilegging hrunsins

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra.
Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra.

Gagnlegt er að líta á kreppuna sem „skapandi eyðileggingu“, sagði Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, í ræðu á flokksstjórnarfundi Samfylkingar. „Til að skapa eitthvað nýtt og betra, verður að ryðja því úr vegi sem orðið er skemmt og fúið.“

Mikilvægt er að huga að þeim markmiðum sem við leggjum áherslu á við uppbyggingu efnahagslífsins, sagði Gylfi. „Sumir Íslendingar höfðu það að markmiði að lifa lífsstíl, sem miðaldarpáfi hefði ekki einu sinni getað leyft sér.“ Nefndi hann gullát og skemmtanir poppstjarna í einkaafmælum, sem dæmi um undarlegt gildismat sumra auðmanna í uppsveiflunni. 

Ekki sé eðlilegt við uppbyggingu efnahagslífisins að skapa tækifæri fyrir einstaklinga sem slík markmið hafa, heldur verði að leggja áherslu á að skapa fjölskyldum tækifæri til að skapa sér sómasamlegt líf.

Reisa ekki við viðskiptablokkir

Gylfi sagði það ekki vera markmiðið að reisa við þær viðskiptablokkir „sem stjórnuðu hér meira eða minna öllu,“ heldur frekar notfæra sér það sem þær hefðu gert vel. Undir þessum samsteypum væri mikið um góð fyrirtæki, þar sem starfaði hæft fólk.

Óskiljanlegt er hvernig það gat gerst að bönkunum var leyft að veita almenningi og fyrirtækjum gríðarlegt magn lána í erlendum gjaldeyri, sagði Gylfi. Vissulega hefðu bankarnir „á pappírunum“ uppfyllt skyldur um gjaldeyrisáhættu. Hins vegar væri ljóst að sveiflur í genginu gerðu almenningi og fyrirtækjum erfitt að standa í skilum, sem hafði bein áhrif á bankana.

Kapítalisminn ekki hruninn

Gylfi segir ekki er rétt að kapítalisminn sem samfélagsskipan hafi hrunið eins og hann leggur sig við fall fjármálakerfisins síðasta haust.

„Hið blandaða hagkerfi sem við Íslendingar höfum búið við, þar sem markaðurinn sér um flest en ríkið um mikilvæga málaflokka á borð við t.d. mennta- og heilbrigðismál, hefur ekki brugðist. Hins vegar er augljóst að við þurfum að gera breytingar á fjármálakerfinu, sem er einungis takmarkaður hluti af þessu heildarkerfi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert