Sparisjóðirnir á Íslandi harma þá erfiðleika sem þjóðin hefur gengið í gegnum eftir hrunið og vilja bæta fyrir sinn þátt í þeim vanda sem nú er að kljást við og heita því að taka þátt í uppbyggingu íslensks samfélags.
Þetta kom fram í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi Sambands íslenskra sparisjóða sem haldinn var í Reykjanesbæ í gær. Fundurinn skoraði á stjórnvöld að koma með öllum ráðum í veg fyrir að það viðskiptasiðferði sem komst á í kjölfar einkavæðingar bankanna nái fótfestu að nýju.
Ný stjórn var kosin á aðalfundinum í gær og var Ólafur Elísson, Sparisjóðsstjóri Vestmannaeyja kjörinn formaður. Aðrir stjórnarmenn eru Angantýr V. Jónasson, Sparisjóði Keflavíkur, Guðmundur B. Magnússon , Sparisjóði Strandamanna, Ragnar Z. Guðjónsson, Byr sparisjóði og Vilhjálmur G. Pálsson , Sparisjóði Norðfjarðar. Í varastjórn voru kjörnir Ari Teitsson, Sparisjóði S-Þingeyinga og Jónas Pétursson, Sparisjóði Svarfdæla.
Ályktun aðalfundar SÍSP er að finna í heild sinni hér