Hundur í göngutúr með eiganda sínum þefaði uppi nítján ára gamla sjóndapran og heyrnarlausan hund sem hafði verið grafinn undir grjóthrúgu við Vesturvör í Kópavogi, um miðjan dag í gær.
Ekki er vitað hvað tíkin Lady, sem er blanda af Schäfer þýskum fjárhundi og íslenskum hundi, lá lengi undir grjóthrúgunni en hún átti ægilega bágt í gær eftir þessa meðferð að sögn eigandans Margrétar Kaaber.
„Ég setti yfir hana teppi og hún bara svaf í tvo klukkutíma alveg gjörsamlega búin“. Margrét hafði síðan sambandi við neyðarlækni hjá Dýraspítalanum sem ráðlagði henni að gefa Lady duft með sykur og söltum. Lady fór svo aftur á Dýraspítalann í morgun þar sem hún fékk vítamín og er nú farin að borða.
„Þetta er hundur með níu líf, segir Margrét. Hún segir Lady bara bratta núna ekki sjá á henni eftir atburðinn að öðru leyti en því að hún hafi verið slöpp og grennst.
Margrét segist hafa hleypt Lady út að pissa á fimmtudagskvöldið . „Svo þegar að ég fór að svipast um eftir henni að þá fann ég hana ekki. Hún fannst ekki fyrr en um miðjan daginn daginn eftir. Það er bara maður hérna í hverfinu í göngutúr með hundinn sinn sem að heyrir eitthvað smá í henni og hundurinn þefar hanar uppi. Það sást ekkert mikið í hana að hans sögn,“ segir Margrét. „Þannig að við vitum ekki hvað þetta var lengi en hún var að heiman í sautján klukkutíma og svona fannst hún.“
Vegfarandi tilkynnti lögreglunni í gær um hund sem hefði verið búið að hlaða grjóti ofan á við Vesturvör. Þega lögregla kom á staðinn, sagðist maðurinn hafa fjarlægt grjótið af hundinum, þannig að lögregla gat ekki staðfest að hundurinn hefði verið grafinn undir grjótinu.
Lögreglan fór síðan með hundinn á Dýraspítalann í Víðidal þar sem hann var skoðaður. Hundaeftirlitsmaður þekkti Lady af lýsingu Margrétar sem hafði tilkynnt um hvarf hans þá um morguninn og var hún fljót að koma og sækja hundinn.