Alvarlegar árásir í miðbænum

mbl.is/Júlíus

Nóttin var erilsöm hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Mikill mannfjöldi var í miðbænum og mikil ölvun. Lögregla sinnti allnokkrum útköllum vegna óláta, en um klukkan tvö var tilkynnt um blóðugan mann á Laugavegi. Í ljós kom að hann hafði verið gestkomandi í húsi við Laugaveg og lent í útistöðum við húsráðanda sem beitti hnífi í átökunum.

Hann var fluttur á slysadeild en þegar þangað var komið vildi hann enga aðstoð. Hann var vistaður í fangageymslum í nótt og fyrrnefndur húsráðandi var einnig handtekinn og vistaður í fangageymslu. Báðir eru þeir erlendir menn og voru mjög ölvaðir.

Rétt fyrir hálfþrjú í nótt fannst svo meðvitundarlaus maður við Kaffi Hressó í Austurstræti. Hann reyndist vera höfuðkúpubrotinn eftir alvarlega líkamsárás. Vitað var um gerandann og sá náðist um þremur tímum síðar og var handtekinn.

Einnig var gert innbrot í bókaforlagið Bjart á Bræðraborgarstíg. Vitni sáu mann vera að bera hluti út í bíl þar fyrir utan, tölvuskjái og fleira. Hans er nú leitað.

Í Hafnarfirði var brotist inn á athafnasvæði Hagvagna og farið inn í þrjá strætisvagna. Tveir ungir drengir sem þar voru viðurkenndu að hafa brotist inn í vagnana til þess að reyna að komast í skiptimynd sem þar gæti verið að finna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert