Fréttaskýring: 40% hafa mátt þola skerðingu á kjörum

Myndin skýrist æ betur af því hvernig kreppan leikur almennt launafólk á Íslandi. Í glænýrri Gallupkönnun meðal félagsmanna stéttarfélaganna Eflingar, Hlífar og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur, svonefndra Flóabandalagsfélaga, er að finna ítarlegar upplýsingar um kjör og hagi stórs hluta launþega. Innan vébanda þessara félaga eru hátt í 30 þúsund launþegar á suðvesturhorni landsins. Félögin hafa staðið að sambærilegum könnunum á umliðnum árum og því er hægt að bera saman áhrif kreppunnar á kjör verkafólks á umliðnum árum.

Háværar viðvaranir um að fólk muni flýja land í stríðum straumum fá ekki hljómgrunn í þessari könnun. Yfir 70% svarenda sem misst hafa vinnuna segjast vera að leita sér að vinnu hér á landi en einungis 4,5% hyggjast leita fyrir sér erlendis. Þá stefna um 17% þeirra á að fara í nám. Ef niðurstöðurnar eru skoðaðar nánar kemur þó í ljós að yngsta fólkið, á aldrinum 16-24 ára, sker sig nokkuð úr. Aðeins rúmur helmingur þeirra, eða 53%, sagðist vera að leita sér að vinnu á Íslandi.

Innan verkalýðshreyfingarinnar finnst mönnum hvað merkast hversu mikil samheldni er meðal launafólks um áherslu á hækkun lægri launa. Níu af hverjum tíu eru sammála þessu, jafnvel þótt það þýði að hækkun lægstu launa yrði á kostnað þeirra sem hafa hærri laun.

Þá vekur sérstaka athygli að könnunin leiðir í ljós að um helmingur þeirra sem ganga atvinnulausir er látinn afskiptalaus. Um helmingur hópsins segist hafa fengið aðstoð, tilboð um vinnu eða nám en hinn helmingurinn telur sig ekki hafa fengið neitt af þessu. „Mér finnst mjög mikið áhyggjuefni að sjá hversu slæm niðurstaðan er gagnvart Vinnumálastofnun því tæplega 50% þeirra sem svara telja sig ekki hafa fengið neina þjónustu af hálfu Vinnumálastofnunar. En hitt er jákvætt fyrir stofnunina að af þeim sem fengu þjónustu töldu yfir 80% sig hafa fengið góða þjónustu. Það er verk að vinna,“ segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar.

Samdráttur í atvinnulífinu hefur leitt til þess að fjórir af hverjum tíu hafa orðið fyrir einhvers konar launa- eða kjaraskerðinguu á undanförnum 12 mánuðum vegna samdráttar. Rúmur helmingur þeirra sem segja kjör sín hafa verið skert segir að það hafi verið gert með yfirvinnubanni, síðan kemur lækkað starfshlutfall og lægri bónusar. Nær fimmti hver launþegi sem hefur orðið fyrir skerðingu hefur orðið fyrir beinni launalækkun. Langmest hefur hún orðið í bygginga- og mannvirkjagerð þar sem 73% svarenda sögðust hafa orðið fyrir launa- eða starfskjaraskerðingu á seinustu 12 mánuðum. 53% iðnaðarmanna og 55% bílstjóra og tækjamanna hafa mátt þola skerðingu á launum og 54% verkstjóra og flokksstjóra. Hlutfallið er lægst meðal þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks eða 27%.

Könnunin var gerð meðal 3.000 félagsmanna í september og október. Endanlegt úrtak var 2.100 manns og svarhlutfallið 48%.

20% leita fjárhagsaðstoðar

Um 53% launamanna innan Flóabandalagsins hafa mjög miklar eða frekar miklar áhyggjur af fjárhagslegri stöðu sinni samkvæmt könnun Gallup. Þeir sem hafa frekar litlar, mjög litlar eða engar áhyggjur eru um fjórðungur þátttakenda. Þá telja 57,1% þeirra sem eru á vinnumarkaði líklegt að þeir verði í sama starfi og þeir eru í núna eftir þrjú ár. Rúm 28% telja það hins vegar ólíklegt.

Fólk hefur greinilega mestar áhyggjur af verðbólgu og háum vöxtum en lág laun voru í öðru sæti þegar spurt var hverjar væru helstu ástæður þess að fólk hefur áhyggjur af stöðu sinni.

Um fimmti hver aðspurðra hefur leitað fjárhagslegrar aðstoðar en um 80% hafa ekki gert það. Flestir leita aðstoðar hjá viðskiptabanka sínum en margir segjast líka hafa leitað til vina og kunningja. Stærstu hóparnir sem leita sér aðstoðar eru þeir sem eru án atvinnu eða á uppsagnarfresti svo og aldurshópurinn 25 til 44 ára.

Ríflega 40% segjast hafa tekið út séreignarsparnað sinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert