Þrír karlmenn, allir um tvítugt, voru handteknir í nótt grunaðir um innbrot í verslunina Réttina í Úthlíð í Biskupstungum. Þar var stolið matvöru og fleira, að sögn lögreglunnar á Selfossi.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði bíl við reglubundið eftirlit um kl. 03:30 í nótt. Þegar rætt var við mennina í bílnum vaknaði grunur um að þeir hefðu eitthvað óhreint í pokahorninu. Þeir munu hafa gengist við því að hafa brotist inn í Úthlíð.
Lögreglan á Selfossi var látin vita af innbrotinu og fór á vettvang. Þar leyndi sér ekki að brotist hafði verið inn. Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu lögreglu höfuðborgarsvæðisins og verða yfirheyrðir í dag.