Einangraðir frá klíkunni en ekki félagsmönnum

Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson SteinarH

Það fer afskaplega í taugarnar á Guðmundi Gunnarssyni, formanni Rafiðnaðarsambandsins, að formenn Verkalýðsfélags Akraness og Framsýnar á Húsavík hafi gagnrýnt samninganefnd Alþýðusambands Íslands harðlega fyrir þá linkind sem sýnd var við endurskoðun kjarasamninganna 25. febrúar og 25. júní.

Þetta segir í pistli eftir Vilhjálm Birgisson, formann Verkalýðsfélags Akraness, þar sem hann svarar Guðmundi vegna ræðu sem hann flutti á fundi trúnaðarmanna Rafiðnaðarsambandsins. Þar sagði Guðmundur að tveir fyrrnefndir formenn væru ekki talsmenn fjöldans í verkalýðshreyfingunni og tækju þar að auki lítinn þátt í umræðu hennar og stefnumótun á landsvísu.

„Guðmundur Gunnarsson formaður RSÍ talar um að áðurnefndir formenn séu einangraðir í verkalýðshreyfingunni. Það má vel vera að áðurnefndir formenn séu einangraðir hvað varðar valdaklíkuna sem öllu vill ráða, en hinn almenni félagsmaður stendur þétt að baki þeim, ef marka má skoðanakannanir sem Capacent Gallup gerði þar sem tvö stéttarfélög innan Starfsgreinasambandsins báru af og viti menn, það var Verkalýðsfélag Akraness með yfir 90% ánægða með starfsemi félagsins og Framsýn á Húsavík með 96% félagsmenn ánægða.

Það er þetta traust sem áðurnefndir formenn vilja njóta: traust félagsmannanna sjálfra. En það skiptir formenn VLFA og Framsýnar litlu máli hvort þeir njóti trausts valdaklíkunnar í Alþýðusambandi Íslands sem að mati formanns VLFA hefur misst öll tengsl við grasrótina og könnun leiddi í ljós að nýtur einungis trausts 25% landsmanna," segir Vilhjálmur Birgisson meðal annars í pistlinum.

Pistillinn í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka