Útgáfa Nýja Landsbankans á gengistryggðu skuldabréfi til 10 ára, upp á 260 milljarða króna, setur ekki óþægilegan þrýsting á krónuna strax. Bréfið er ekki með jöfnum árlegum afborgunum, heldur er það afborgunarlaust næstu fimm árin.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu, í tilefni af forsíðufrétt Morgunblaðsins á laugardag: „Samkomulag um lækkun gengisins.“ Bréfið er gefið út til gamla bankans, vegna þeirra útlána sem tekin voru yfir í nýja bankann.
„Vegna þeirra hugsanlegu áhrifa á krónuna sem bent er á, var samið um að skuldabréfið væri afborgunarlaust fyrstu fimm árin, en síðan greitt niður á árunum 2014–2018, þegar gjaldeyrismarkaður verður kominn í eðlilegt horf," segir í tilkynningunni frá fjármálaráðuneytinu.
Segir þar að vegna þess hversu há upphæðin er sé afborgunarferill þess hannaður með tilliti til áætlana um greiðslujöfnuð landsins gagnvart útlöndum á næstu árum. Ekki verði því nein óeðlileg áhrif á gengi krónunnar á næstu árum.
„Með samningunum má segja að Landsbankinn hafi tryggt sér aðgang að erlendu lánsfé til langs tíma og getur hann því fjármagnað öll útlán til þeirra viðskiptavina sinna sem þurfa á slíku fé að halda í starfsemi sinni. Hér er helst um að ræða útflutningsfyrirtæki og aðra aðila sem hafa tekjur í erlendum myntum," segir ennfremur í tilkynningunni.