Lögregla og slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sinntu útköllum vegna bruna og spellvirkja við tvo skóla í nótt. Tilkynnt var um eld í skotbómulyftara við Urðarhvarf í Kópavogi kl. 01:23 í nótt. Lyftarinn er mikið skemmdur ef ekki ónýtur að mati slökkviliðsins.
Fimm rúður voru brotnar í Hlíðaskóla við Hamrahlíð í nótt. Ekki virtist hafa verið gerð tilraun til innbrots heldur að um skemmdarverk hafi verið að ræða.
Nokkrir unglingar gerðu tilraun til innbrots í Hólabrekkuskóla við Suðurhóla. Tilkynnt var um innbrotstilraunina kl. 01:12. Piltarnir náðust allir og reyndust vera undir sakhæfisaldri, nöfn þeirra voru tekin niður og foreldrar sóttu þá til lögreglunnar.
Þá barst útkall vegna sinuelds við Korpúlsstaðaveg, nálægt Barðastöðum, kl. 05:26 í morgun. Það þykir nokkuð óvenjulegt að tilkynnt sé um sinueld á þessum árstíma. Eldurinn reyndist ekki útbreiddur og voru slökkviliðsmenn snöggir að kæfa hann.
Fáir gistu fangageymslur lögreglunnar í nótt. Sumir þeirra fengu gistingu vegna heilsufars og blankheita.