Fordæma niðurstöðu stjórnar KSÍ

Merki KSÍ
Merki KSÍ

Femínistafélag Íslands, Samtök um Kvennaathvarf og Stígamót fordæma niðurstöður af stjórnarfundi KSÍ fyrir helgi. Það er óásættanlegt að stjórnin víki ekki eftir að upp komst um vítavert framferði fjármálastjóra KSÍ og máttleysisleg viðbrögð stjórnarinnar í kjölfarið, að því er segir í yfirlýsingu frá samtökunum.

„Á sama tíma og fyrstu opinberu mansalsmálin á Íslandi vekja ugg í samfélaginu er upplýst að einn forsprakki íþróttahreyfingarinnar hafi skemmt sér næturlangt á klámbúllu erlendis í ferð á vegum KSÍ. Mansal þrífst hvergi betur en á klámbúllum. Eigum við að fordæma mansal hérlendis og á sama tíma leyfa íslenskum körlum að styðja gróðrarstíu þess erlendis?
 
Íþróttahreyfingin á Íslandi gefur sig út fyrir að vera fyrirmynd fyrir æsku landsins og halda uppi kröftugu forvarnarstarfi. KSÍ þiggur þess vegna miklar fjárhæðir ekki einungis af foreldrum þessa lands heldur einnig hinu opinbera. Kvennahreyfingin krefur Íþróttasamband Ísland og önnur íþróttafélög um að sýna gott fordæmi og taka afstöðu til málsins.
 
Við neitum að láta af hendi peninga til félags sem sýnir af sér hegðun sem þessa og hvetjum hið opinbera til að leggja forvarnarpeninga í önnur félög.
 
Æska Íslands á betra skilið. Unga fólkið okkar sem erfir skuldir forfeðra sinna á ekki að þurfa að líða siðblindu og dómgreindarskort forsvarsmanna KSÍ, að því er segir í  yfirlýsingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka