Íslendingur fannst látinn

Maðurinn fannst í vatninu Krøderen.
Maðurinn fannst í vatninu Krøderen.

Lögregla í Noregi hefur staðfest, að lík sem fannst í Krøderfirði í dag er af 48 ára gömlum Íslendingi, sem leitað hefur verið að frá því í nótt.

Leitarþyrla fann lík mannsins laust fyrir hádegi um 20 metra frá landi í Krøderen um 500 - 600 metra norðan við Noresund. Þyrlu, bátum og leitarhundum auk gangandi leitarmanna var beitt við leitina að Íslendingnum.

Að sögn norsku fréttastofunnar NTB fundust persónuskilríki á líkinu sem staðfesta að um að ræða manninn sem leitað var að.  

Síðast sást til mannsins þegar hann var á leið heim frá Osló til Gol í Hallingdal aðfaranótt sunnudags með áætlunarbíl. Hann var ölvaður og látinn yfirgefa áætlunarbílinn á stoppistöð í miðbæ Noresund í Krödsherad fyrir kl. eitt um nóttina, um 90 km frá Hallingdal. 

Vefsíða Aftenposten segir að  síðast hafi sést til mannsins þar sem hann  gekk með þjóðvegi 7 í átt til Hallingdal.  Mynd af manninum náðist í eftirlitsmyndavél á bensínstöð í Noresund kl. 00.28 aðfaranótt sunnudagsins. Lögreglan hefur fengið ábendingar frá ökumönnum sem áttu leið um þjóðveg 7 um að þeir hafi séð manninn á gangi með veginum. Maðurinn hringdi heim til sín um kl. 00:57 en gat þá ekki gert grein fyrir því hvar hann var staddur.

Rútubílstjóri fór eftir reglum

Framkvæmdastjórar rútufyrirtækisins Firda Billag segja  við norska fjölmiðla, að rútubílstjórinn hafi fylgt öllum reglum þegar hann vísaði Íslendingnum út úr bílnum. Þannig hafi manninum verið hleypt út í þéttbýli og bílstjórinn hafi haft samband við lögreglu og látið vita um atvikið. Hann hafi ekki lagt af stað aftur fyrr en lögreglan heimilaði það.

Sýslumaðurinn í Krødsherad segir við fréttastofu NTB, að lögreglan hafi haldið á staðinn til að sækja manninn en fann hann ekki þegar hún kom á staðinn þar sem honum var vísað út úr rútunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert